Af silfrinum skulum við þekkja þá

Það var ánægjulegt að sjá íslenska handboltalandsliðið standa á verðlaunpallinum í Peking, og þrátt fyrir gullið hafi ekki skilað sér þá verða menn að vera ánægðir og raunsæir. Það var einhver tilfinning sem að sagði mér að það yrði að á brattann að sækja hjá landum í sjálfum úrslitaleiknum enda liðið búið að leika hreint frábærlega framan af. Frábær liðsheild og markvisst starf hafa greinilega skilað sínu. Á vellinum snýst þetta ekki um stærð þjóðanna sem í hlut eiga heldur fjölda leikmanna inn á vellinum.

Það var greinilegt að stíft leikjaprógramm og sennilega spennufallið eftir leikinn við Spán tók sinn toll. Árangurinn er samt einstakur og það má segja að framganga íslensku landsliðsmannanna hafi komið handboltanum í umræðuna, sérstaklega þar sem greinin er tiltölulega óþekkt í mörgum löndum, en það að New York Times fjalli um hið íslenska öskubuskuævintýri eru stórmerkilegar og jákvæð fyrir íþróttina í heild. Því miður hefðu fleiri ævintýri mátt líta dagsins ljós en það varð ekki raunin þar sem að stórþjóðirnar einokuðu verðlaunpallana. Sem starfsmaður hjá stærsta heimsíþróttasambandinu FIVB (Alþjóðablaksambandinu) með 220 aðildarsambönd innan sinna vébanda þá er rétt að greina frá því að fjölmargir vinir og félagar víða að heiminum hafa hringt til þess að óska mér til hamingju með íslenska handboltalandsliðið þó svo að ég hafi ekkert með það að gera og starfi að allt annarri íþrótt.

Það sýnir svo ekki verður um villst að menn hafa tekið eftir íslenska kraftaverkinu og er það vel. Handbolta landsliðið á það svo sannarlega skilið. Því fer samt fjarri að íslenskar afreksíþróttir standi undir nafni þegar að samanburðinum kemur við þær þjóðir sem að við viljum etja kappi við. Eftir að hafa starfað að íþróttamálum í langan tíma, jafnt á vegum sérsambands sem alþjóðasérsambands þá segir reynslan mér að starfsumhverfi sérsambandanna á Íslandi gæti verið mun betra en það er þeim þrautin þyngri að halda úti landsliðs og afrekstarfi þá sér í lagi í hópíþróttunum. Fjármagn eitt og sér gerir ekki allt þar sem að fagteymi, fastráðnir þjálfarar og virk framtíðarsýn þar sem að afrekshópar eru myndaðir með það fyrir augum að taka þátt í stórmótum 2010, 2012, 2014 og 2016 þurfa að vera í myndinni.

Það má heldur ekki gleyma stuðningi við íþróttamennina og þá sem að eiga að stýra skútunni. Það kerfi sem byggir á því að menn séu allt í einu, þ.e. stjórnarmenn, formenn, fjáröflunarmenn, sjálboðaliðar og framkvæmdaaðilar eru varahugavert. Auðvitað eru slík dæmi enn við lýði og ganga stundum upp en til langframa mun það ekki virka heldur leiða til þess að menn brenna út og hætta sjálfboðastarfinu og við það skerðist getan til afreka til mikilla muna. Sjálfboðaliðar eru og verða samt áfram mikilvægir í starfi frjálsra íþróttasamtaka eins og sérsamböndin eru en það þarf skilyrðislaust að búa til betri starfsskilyrði svo starfskraftar sjálboðaliðanna nýtist betur.

Í dag snúast hlutirnir um að starfið sé faglegt og það sé rekið af ábyrgð og festu. Krafan á hendur sérsamböndunum um að þau ali ekki bara upp afreksmennina, kosti útgerð þeirra, greiði jafnt þjálfunarkostnað, vinnutap, auk laun fagstarfsmanna og lykilstjórnenda sýnir svo ekki verður um villst að skyldurnar eru miklar og í raun mun meiri en raunveruleg geta oft á tíðum. Í raun er ekki hægt að reka afreksstarfið nema að stofna til mikilla fjárútláta á meðan á undirbúningstímanum stendur og oftast nær er boltanum velt áfram. Margur kann að segja menn verði að sníða stakk eftir vexti en það er nú sennilega raunveruleikinn hjá flestum sérsamböndunum sem starfa ekki á fullum afköstum í slíku umhverfi og geta þar af leiðandi ekki stutt nægjanlega við bakið á afreksfólki sínu eða getan til þess að halda úti afreksstarfi af einhverju viti er ekki til staðar.

Á meðan milljarða fjárfestingar hafa verið í íþróttamannvirkjum og mikill vöxtur í starfi sértækra samtaka sem að starfa eingöngu í héraði þá hefur afreksstefnan sjálf setið á hakanum. Til að mynda er staðan orðin þannig í sumum greinum að íþróttamennirnir eru að koma fram í eigin nafni til þess að afla fjár og þannig verður afreksstefnan fjarræn. Mörg sérsambönd eru í tilvistarkreppu og eiga ekki eingöngu í erfiðleikum með að reka starf sitt á landsvísu heldur eru þau líka í samkeppni við önnur innlend íþróttasamtök um fjármuni og bætta aðstöðu auk annarar fyrirgreiðslu. Það versta af öllu er þó þegar einkaaðilar, bæjar- og sveitarfélög eru farinn að reka eigin íþrótta- og utanríkispólitík án samráðs og samvinnu við sérsamböndin. Án efa kann ástandið að vera misjafnt á milli greina.

Við gleðjumst samt öll þegar vel gengur en gleymum oft því að mörg handtök liggja að baki árangri í þágu þjóðar. Árangur handboltalandsliðsins sýnir að að það er kominn tími til þess að sérsamböndin verði gerð að sterkari einingum, og hver getur ekki tekið undir það eftir að hafa séð þá landkynningu sem að streymt hefur frá erlendu fjölmiðlunum síðustu daga. Íþróttir eru ekki bara menning, heldur stórfelld landkynning, þar sem ný tengsl og ný tækifæri eru mynduð á milli einstaklinga og þjóða.  Þar  eru íþróttamennirnir í lykilhlutverki og það gleymist oft.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband