Af svissneska samkeppniseftirlitinu
25.5.2008 | 12:07
Liðin vika hefur verið annasöm í meira lagi og margir fundir og þá sér í lagi hafa heimsóknirnar verið margar og tíðar, kannski ekki nema von þar sem að nýju höfuðstöðvarnar voru opnaðar með pomp og prakt. Þegar rykið er fallið og kyrrðin tekin við þá halda menn áfram störfum eins og vanalega. Mér brá heldur betur í brún á síðasta miðvikudag þegar ég fékk bréf frá svissnesku samkeppnisstofnuninni í Bern eftir að hafa talið að samkomulag hefði verið í höfn og sérstaklega eftir að hafa staðið í bréfaskiptum við stofnunina síðustu 3 árin. Það er nú svo, að í íþróttaheiminum eiga alþjóðlegu sérsamböndin í miklum viðskiptum við framleiðendur íþróttavara og hlaupa upphæðirnar á háum tölum. Margir minni framleiðendur hafa reglulega klagað alþjóðlegu sérsamböndin fyrir ólögalega viðskiptahætti og talið að þau meini mönnum aðgang að íþróttunum með vörur sínar. Því er til að svara að dyrnar standa öllum opnar, en auðvitað líta málin allt öðruvísi út þegar að opinberir aðilar opna skýrslu um málið og það fer í farveg. Þessi farvegur verður síðan að möppu sem á endanum verður skrifleg skýrsla enda verða embættismennirnir að réttlæta sín störf. Ég hef mætt í höfuðstöðvarnar eftirlitisins í Bern og gert ítrekaða grein fyrir málefnum mín sambands og hélt að við værum að ná samkomulagi þegar menn vöknuðu af værum blundi í Bern og hófu að skrifa mér aftur, enda miklu nær að halda lífi í skýrslunni eftir ár án samskipta manna í millum.
Vandamál margra alþjóðasérsambanda er fólgið í þeirri staðreynd að þau eru ekki rekin áfram af hagnaðarsjónarmiðinu þrátt fyri að miklir fjármunir streymi þar um, en alþjóðasérsamböndin hafa mikil áhrif á viðskipti með vörur sem notaður eru i íþróttum. Helsta hagsmunamál alþjóðasérsambandanna er að tryggja að framleiðendur íþróttavara framleiði vörur sem að uppfylla alþjóðlega staðla og til að mynda að verksmiðjurnar noti ekki börn við t.d. boltaframleiðsluna jafnhliða því að starfsskilyrði starfsmanna séu boðleg. Það eru þó margir aðrir þættir sem að spila inn í málin en því miður hefur skrifstofuklanið í Bern enga hugmynd um þann veruleika heldur horfir blákalt á málin út frá þröngu sjónarhorni sem er að greiðslur til okkar séu of háar. Því er til að svara að mörg alþjóðasérsambönd eru bundin í klafa eigin reglna sem heimilar þeim að útbúa staðla og útbúa leyfiskerfi sem að allir geta sótt um aðild að og boðið sínar vörur fram. Náttúrulega er það svo að það hugnast ekki öllum og hér eru engir leynifundir eða samráð í gangi og hér halda menn ekki til fjalla og ræða saman málin, því fer fjarri þar sem að hvert og eitt alþjóðasérsamband hefur sína aðferð. Það gleymist oft að það er í verkefnahring alþjóðasérsambandanna að setja reglur og staðla fyrir framleiðendur íþróttavara sem miðast að því að tryggja jafnræði þeirra á gagnsæjan hátt auk þess að tryggja að framleiðendur noti engin hráefni eða efni sem geta verið skaðleg iðkendunum. Það er líka kostnaðarsamt að halda úti slíku eftirliti og það er spurning hvort að sá kostnaður sé nægjanlega gegnsær. Það er líka ljóst að fjárhagslegir hagsmunir alþjóðasérsambandanna eru miklir og vonandi að ásættanlegt samkomulag náist enda ótækt að standa í stappi við samkeppnisyfirvöld.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.