Að sniðganga Ólympíuleikana
5.4.2008 | 13:08
Það hefur verið átakanlegt að fylgjast með umræðunni um að sniðganga Ólympíuleikana i Peking 2008. Frá sjónarhóli Alþjóðasérsambandanna, Alþjóðaólympíunefndarinnar, Ólympíunefnda, sérsambanda og íþróttamanna þá snúast Ólympíuleikarnir um að efla þau heit er íþróttir standa fyrir. Því miður eru þau heit ekki af pólitískum toga því að kjarninn í Ólympíusáttmálanum er sá að íþróttasamtök hafna öllum pólitískum og trúarlegum afskiptum enda ljóst að ef pólitísk viðmið ættu að ráða ferðinni þá væri alþjóðleg mót og alþjóðleg íþróttasamvinna fyrir bí þar sem að sífelld afskipti yrðu höfð. Það er líka ljóst að gildi íþróttanna standa fyrir samvinnu og að brjóta niður hvers konar múra er hefta mannlega reisn. Ef Ólympíuleikar eiga að taka mið af pólitískum afskiptum þá er ljóst að íþróttastarfið mun bíða skipbrot. Flestir þeir sem starfa að íþróttum skilja hagsmuni Tíbets og íbúa landsins en aðrar leiðir verður að fara en að beita pólitískum afskiptum af frjálsri íþróttastarfssemi. Margur kann hins vegar að benda á að mörkin séu oft á tíðum óljós og get ég svo sem tekið undir það eftir að hafa heimsótt ríki í Asíu þar sem að hið opinbera skilur stundum eftir fingraförin á starfinu. Slík afskipti eru ekki til fyrirmyndar en þegar að hið opinbera kostar starfið þá er oft erfitt að gagnrýna. Það má heldur ekki vanmeta þau jákvæðu gildi sem að Ólympíuleikarnir standa fyrir og sérstaklega þegar þeim er varpað yfir heimsbyggðina alla í gegnum frjálsa fjölmiðlun. Eru menn tilbúnir að setja slíka hagsmuni til hliðar? Það er auðvelt að koma fram og segja við styðjum Tíbet og við erum á móti ÓL í Peking, en hvað svo?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.