Hægfara eignaupptaka

Það er eðlilegt að hinn sérstaki auðlegðarskattur sé skoðaður nánar og þá með tilliti til þeirra áhrifa sem að hann hefur á hinn almenna borgara. Margir hafa tjáð sig um málið enda hefur það komið í ljós að margir eldri borgarar fara illa út úr þessu þar sem að þeir búa margir í skuldlausum fasteignum. Það eru líka mýmörg dæmi um það að fólk hafi lágar tekjur en eigi dýrar fasteignir, eignir sem að það byggði sjálft af eigin dugnaði og af eljusemi.

Er það eðlilegt að launamaður sem að hefur hefur lagt sitt til samneyslunar í formi skatta og annara greiðslna til hins opinbera, auk þess að greiða skatta og skyldur til síns sveitarfélags þurfi að greiða enn frekari skatta vegna þess að fasteignamat eignarinnar hefur hækkað mikið í gegnum árin og hækkar þannig eignastöðuna hjá viðkomandi í skattalegu tilliti. Á sama tíma er viðkomandi kannski sestur í helgan stein og hefur einungis úr ellilífeyrinum að spila?

Sennilega kemur þessi skattur harðar niður á þeim sem búa á Reykjavíkursvæðinu enda fasteignamatið þar hærra en víðar gengur og gerist. Tveir einstaklingar búa í svipuðum húsum eiga svipað undir sér nema hvað annar einstaklingurinn býr á röngum stað í röngu húsi á röngum tíma.

Flestir byggja sína veröld á því að afla launatekna og þær eru skattlagðar í samræmi við tekjurnar sem aflað er. Í 1sta lið 72 greinar Stjórnarskrár Íslands segir að eignarétturinn sé friðhelgur. Er það svo þegar búið að skattleggja launatekjurnar einu sinni, viðkomandi launþegi búinn að kaupa vöru og þjónustu á almennum markaði eftir að hafa verið þátttakandi í efnahagshringrásinni þurfi síðan að greiða skatta af slíkri eignamyndun aftur? Er það réttlátt kerfi?

Að auki ber að geta þess að það er þegar búið að hækka tekjuskatta sem meira vit er í. Kannski væri líka raunhæfara að hækka þá fjármagstekjuskattinn meira í stað þess að vera með dulbúna skattheimtu sem kann að vera mjög ósanngjörn fyrir vissan hóp skattgreiðenda. Er ekki eðlilegra og raunhæfara að menn greiði meiri skatta af arði vegna umsýslu fjármagns í stað þess að skattleggja fasteignir þeirra sem eru hættir að vinna og skila eigendum kannski litum sem engum arði?

Það er vonandi að við endum ekki í svipuðum sporum og þegnar Vilhjálms III Englandskonungs sem að lagði skatt á hús með tilliti til þess hve margir gluggar voru á því. Auðvitað fór það svo á endanum að fólk múraði upp í gluggana og þá minnkaði skattfé ríkisins en er það ekki hundalógík?

 


mbl.is Tekjulágir skattlagðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

þetta er rangt athugað hjá þér Guðmundur. Fólk greiðir skatt af hagnaði við umsýslu fjármagns, nefnilega fjármagnstekjuskatt. Varðandi auðlegðarskatt af skuldlausum stóreignum eldra fólks, þá finnst mér hann sjálfsagður. Hvaða vit er annars fyrir eldri borgara að búa í stórum eignum og dýrum í rekstri. Auðvitað á það að selja þessar eignir,kaupa, minni og ódýrari. og hafa þá úr meiru fé að spila og losna þannig við auðlegðarskattinn

óli (IP-tala skráð) 29.3.2012 kl. 16:33

2 Smámynd: Jón Óskarsson

@Óli:  Þetta hefur væntanlega átt að vera háðsádeila hjá þér ?

Það væri allt eins hægt að segja við þig að "fulltrúar ríkisins komi heim til þín á morgun, hirði af þér gsm (þú getur alveg nota venjulegan heimasíma), heimilistölvuna (þú ert hvort eð er ekki að vinna á hana, bara leika þér), þér verður gert að taka 2-3 auka einstaklinga inn á heimilið þitt þar sem það kom í ljós að nokkrir fermetrar voru ónýttir, þú hefur ekkert við útvarp og græjur að gera, þú getur náð því í gegnum sjónvarpið, og eflaust má finna fleira nýtilegt heima hjá þér sem ríkið gerir upptækt"

Þetta er algjörlega sambærilegt við það að ætla að skipta sér af því hvort fólk á efri árum búi í húsnæði sem það byggði kannski með eigin berum höndum stritaði við að þurfa ekki að taka lán fyrir því og er í þessu húsnæði búið að ala upp sín börn og á allar sínar góðu minningar og hefur liðið vel þar til skattmann bankaði upp á og krafðist þess að fá þetta hús í áföngum í formi "auðlegðarskattlagningar"

Jón Óskarsson, 29.3.2012 kl. 18:31

3 Smámynd: Guðmundur Helgi Þorsteinsson

Góð umræða drengir. Ég sammála þér Jón að það er ekki hægt að nota slíka skattheimtu til þess að ná krónum í ríkiskassann það er betra að það komi af beinum tekjum sem að menn afla í gengum launaða vinnu eða í gegnum fjármagnstekjur. Það er lítið vit í því að tveir einstaklingar sem að eru á svipuðum stað í lífinu, eiga svipaðar eignir búi við ólíkt ástand þ.e. að vera í vitlausu húsi á vitlausum stað og á vitlausum tíma. Það er verið að drepa niður frumkvæði og vilja hjá fólki og það er janfvel enn verra eins og gluggaskatturinn sálugi hjá Vilhjálmi III Englandskonungi sannaði svo eftirminnilega.

Kv.

Guðmundur

Guðmundur Helgi Þorsteinsson, 29.3.2012 kl. 22:38

4 Smámynd: Jón Óskarsson

Skattakerfi og velferðarkerfi eiga sameiginlega að vinna að því að gera fólki kleift að vera fjárhagslega sjálfstætt.  Það á að vera hvetjandi að vinna og afla tekna.  Það á að vera hvetjandi að fjárfesta og það á að styðja við frumkvæði.

Skattlagning beinna tekna þýðir að þú átt þitt (og átt eiga) frelsi til að nýta þær krónur sem eftir standa að eigin geðþótta.

Þá sem fyrst og fremst hafa sínar tekjur af fjármagnstekjum og eignaumsýslu er hægt að skattleggja á einfaldan máta, enda eru til staðar reglur hjá RSK um hvernig menn eigi að reikna sér endurgjald og því þarf einfaldlega að fylgja fast eftir varðandi svona hópa.  Það er ekki flókið mál né ósanngjarnt.

En látum þá sem ná að eignast yfir ævina eignir sem skapar þeim fjárhagslegt öryggi í friði með sínar eigur.   Það er þegar búið að margskattleggja það fólk.

Jón Óskarsson, 30.3.2012 kl. 10:40

5 Smámynd: Guðmundur Helgi Þorsteinsson

Sammála því sem þú segir Jón. Segir ekki einhversstaðar að við ættum að búa öldruðum áhyggjulaust ævikvöld eða er það kannski óskhyggja nú um stundir. Það er einvherskonar firring í gangi og það er eins og öllum þurfi að líða jafnilla. Það má engi vera meira en meðal Jón.

Kv.

Guðmundur

Guðmundur Helgi Þorsteinsson, 30.3.2012 kl. 20:57

6 identicon

Sælir.

Hjón sem eiga eignir sem eru hærri enn 100 miljónir borga þenna skatt og sé ég bara ekkert að því að þau greiði skatt af þessu eignum. Sé svo að viðkomandi hafi bara ellilífeyri í tekjur þá hefur viðkomandi ekki efni á að búa í húsi sem er í fasteignamatið  á eign þeirra er  meira enn 100 miljónir, því þið hljótið að sjá að rekstur á svona húsi er meiri enn ellilífeyririnn.  Til að þjóðfélagið geti virkað þarf að skattleggja og það er sama hvar er settur á skattur þá er byrjað að væla.

Kv

Sigmundur

Sigmundur Grétarsson (IP-tala skráð) 1.4.2012 kl. 20:39

7 identicon

Sigmundur,

Málið snýst ekki um fasteignina heldur skattlagninguna og hversu réttlát hún er. Dæmið snýst einungis um að beina augum að því hversu óréttlát slík skattlagning er vegna þess að viðkomandi eigendur hafa lagt allt sitt í að byggja fasteign og hafa keypt vörur og þjónustu til þess að búa til þessi verðmæti, greitt vsk. o.s.frv. Mér sýnist samt að þú jánkir því að það hjálpar ekki að þau séu skattlögð aukalega. Til þess að þjóðfélagið geti virkað þá ætti að stilla skattlagningu í hóf og ríkið ætti að fá í kassann skatta af neyslu í formi viðskipta þ.e. hið opinbera ætti að stækka kökuna og fá fleiri til þess að stunda verslun og viðskipti og fá þannig meira í kassann. Um það snýst málið en ekki að væla yfir því að borga skatta heldur hitt að stækka kökuna svo meira verði eftir fyrir hið opinbera til þess að fjármagna samneysluna.

Kv. Guðmundur

Guðmundur (IP-tala skráð) 2.4.2012 kl. 11:19

8 identicon

Sælir Guðmundur.

Við reyndum að hafa skattprósentuna lága og ekki virkaði það, þá fóru menn til Tortóla ofl.

Skattprósenta hér á landi er ekki hærri enn annarsstaðar, þá meina ég í samanburðar löndum okkar. Það sem er verst er hvað menn geta flúið skattana með því stofna alltaf nýtt og nýtt fyrirtæki. Í flestum löndum er það þannig að áður enn fyrirtæki  eða lögaðili fær VSK númer þá þarf að vera búið að stofna til bankaábyrgðar fyrir þeirr upphæð sem áætlað er að viðkomandi aðili rukkar. Sá í viðskiftablaðinu í síðustu viku og þar vorum við ekki í eftsusætunum. Það þarf meiri hörku í innheimtu á þeim sköttum sem aðilar hafa innheimt, þeir eiga ekki þá peninga .

KV

Sigmundur

Sigmundur Grétarsson (IP-tala skráð) 2.4.2012 kl. 16:50

9 Smámynd: Guðmundur Helgi Þorsteinsson

Sæll Sigmundur, Simmi,

Orðræðan er alltaf góð þó svo að þetta mál hafi vikið nokkuð af leið.

Ég get ekki séð hvað það kemur málinu við að menn hafi farð til Tortóla. Það eru margir sem að stofna aflandsfélög og t.a.m. á þeirri eyju sem að þú nefnir. Það hefur held ég engin verið dæmdur fyrir slíkt á Íslandi ennþá þ.e. fyrir ólöglega gjörninga en við sjáum hverju fram vindur. Við verðum líka að vara okkur á að alhæfa ekki og bera saman rétta hluti og taka þá tillit til þess vörsluskattar, beinir skattar og óbeinir skattar lúta mismunandi staðreyndum.

Ég ætla að reyna að skýra samhengið. Hugsum okkur svo að þú drekkir romm af miklum móð, reykir fína vindla og sért sólginn í sykur þá er um valkvæða skatta að ræða þ.e. þú getur ráðið hversu mikið þú neytir af þessum ágætu vörum eða fundið þér aðrar sem færa þér sama notagildi ef verð þeirra hækkar úr hófi fram. Ef hið opinbera kýs að hækka vsk á þessar vörur þá er ljóst að einungis þeir sem að neyta þeirra mun þurfa að greiða aukna skatta. Viðkomandi neytandi getur breytt hegðun sinni, keypt aðrar vörur sem hafa sama eða svipað notagildi. Gamli maðurinn sem að byggði húsið og greiddi skatta og skyldur af eignamyndun sinni alla tíð og lagði sparnað sinn í bygginguna og unga fjölskyldan sem að erfði fína stóra húsið sem að kostar meira en 100 milljónir hafa ekkert val. Það er því erfitt að bregðast við valkvæðum sköttum.

Er ekki málið að reyna að stækka kökuna, hafa hóflega skatta þar sem að allir taka þátt í samneyslunni á sínum forsendum, forsendum þar sem aðilum er gert jafnt undir höfði. Er ekki betra að halda landinu í byggð með fólk sem þó leggur eitthvað til málanna í stað þess að fæla skattborgana í burtu?

Auðvitað verða fyrirtæki og einstaklingar að skila vörslusköttum. Við þurfum að slá skjaldborg um lítil og meðalstór fyrirtæki enda hafa mælingar sýnt að þau halda fjölskyldum þessa lands gangandi og leggja sitt til samneyslunnar.

Kv.

Guðmundur

Guðmundur Helgi Þorsteinsson, 2.4.2012 kl. 21:43

10 identicon

Sælir Guðmundur.

 Með að setja sparnað sinn hús eða banka þá færðu alltaf eiganskatt. Ef við kvörtum um háa skatta hér á landi , þá má velta fyrir sér hversvegna fólk flyst  búferlum til t.d. Noregs eða Danmerkur sem er með mun hærri skatta? Er það ekki vegna þess að þær fær fólk aftur til baka í betri samfélagsþjónustu heldur enn til dæmis á Íslandi. Ég held að það sem máli skift er að þjóðfélagið sé þannig að skattar geri þjóðfélagið sterkara. Samanburðar lönd okkar eru ekki með neitt minni skatta heldur tel ég að þau fari betur með skattpeningana.

Svo vegna þess að þú varst með áhyggjur af eldrafólki þá má líka spá í það að öll borgum við skatta mis háa þó og svo þegar kemur að ævikvöldi og maður ætti nú að fá ellilífeyri þá er hann skertur af því að maður var að setja í sparnað hjá t.d. lífeyrissjóði. Ég veit ekki í betur enn að í því landi sem þú býrð í núna að þá fá allir sama ellifífeyrinn útborgað frá ríkinu hvort sem menn eigi 100 miljónir í húsi eða sjóð, skatturinn tekur svo bara hluta til baka. Hvað finnst þér um það ?

Kv Simmi

Sigmundur ( simmi ) (IP-tala skráð) 3.4.2012 kl. 21:04

11 Smámynd: Guðmundur Helgi Þorsteinsson

Sæll Simmi,

Eignarskattar eru alltaf sérstakir í meðförum. Í Zurich þá eru eignarskattar mjög lágir 0.3% sem kann að vera hátt ef innlánsvextir eru 0.25%. Í svissneska sæluríkinu hafa menn lært að lágir skattar skila mun meira til samfélagsins heldur en ofurskattar, enda setjast margir þar að og skapa landinu arð og skatttekjur. Það eru hinsvegar engin tvö lönd eins í þessu tilliti. Þar kristallast kannski orð þín þegar þú segir að skattar eigi að gera þjóðfélagið sterkara. Í svissneska sæluríkinu eru flestir skattar lágir og það virðist gagnast þjóðfélaginu vel, t.d. 8& virðisaukaskattur, tekjurskattar fara eftir tekjum eru frekar lágir í samanburði við norræna velferðar módelið. Ég held að í Danmörku og Svíþjóð þá séu skattar almennt háir enda fer stór hluti af þjóðarframleiðslunni í að rekja kerfið og mun meiri félagsleg aðstoð í boði. Það er erfitt að meta hvort að þessi lönd fari betur með peningana það er allt afstætt. Það er hinsvegar staðreynd að Ísland er lítið land sem að rekur dýr kerfi miðað við höfðatölu og það vantar meiri nýsköpun í útfærslu á þjónustu innan kerfisins. Nýsköpun og ný hugsun geta án efa hjálpað til við að ná fram hagkvæmara kerfi en sjáum til.

Já, fólk flyst í stórum stíl til útland Danmerkur og Noregs og víðar. Ég held að málið snúist um að hafa atvinnu fyrir alla fjölskylduna og lífsviðurværi. Kannski sækir fólk í meiri opinbera aðstoð en hægt er að veita á Íslandi, hver veit?´

Já ég hef áhyggjur af eldri borgum og þeirri stöðu sem að margir þeirra eru í.  Margir þeirra ráða ekki við að greiða óréttláta skatta þrátt fyrir að eiga fasteign sem kann t.d. að vera illseljanleg og hafa að auki hátt fasteignamat. Ef ég fer rétt með þá er fasteignagjöld á Reykjavíkursvæðinu orðin yfir 400 þúsund á 220 fm húsi og svo koma auðlegðarskattar ofan á þær greiðslur, auk annarra skatta.

Í Sviss er stöðugleikinn alger og t.a.m. er sama verð á raksápunni hér og fyrir áratug. Það getur kannski gefið þér vísbendingar um það af hverju lífeyrissjóðs kerfið er sterkt. Hér eiga hinsvegar einungis 20% íbúanna fasteignirnar sjálfir, aðrir eru leiguliðar. Það er líka rétt að benda þér á að ég fer að tilheyra eldri borgurum fljótlega og eðlilegt að ég tjái mig um framtíðina enda greiði ég þessa tegund skatta sem um hefur verið rætt, en hef þráast við að flytja lögheimilið af landinu fagra.

Kv. Guðmundur

Guðmundur Helgi Þorsteinsson, 3.4.2012 kl. 22:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband