Færsluflokkur: Sveitarstjórnarkosningar
Að stjórnast af skuldum sínum eða vera stjórnað af skuldum sínum
18.2.2012 | 13:06
Það var ágæt grein um ábyrga fjármálastjórn í Morgunblaðinu fyrir nokkrum dögum síðan. Því miður verður að segjast eins og er að mörg sveitarfélög hafa offjárfest síðustu 10 -15 árin og hafa þau flest hver verið rekin með halla utan 2006 og 2007 þegar að tekjur landsmanna voru í hæstu hæðum. Því miður hafa fjármál sveitarfélaga ekki verið sjálfbær um langan tíma ef frá eru talin nokkur sveitarfélög. Það má kannski segja að hið opinbera hafi ekki stuðlað að nægjanlegu aðhaldi þegar kemur að fjármálum sveitarfélaga, sérstaklega þegar tekið er tillit til áhrifa þeirra á almenna hagstjórn. Í stað þess að sveitarfélög hafi lagst á sveif með hinu opinbera við hagstjórnina og ástundað aðhald þá hafa þau sótt sér allmikið framkvæmdafjármagn í gegnum erlend lán og stuðluðu þar með að þrýstingi á krónuna auk annarar skuldsetningar. Auðvitað geta menn svo sem sagt að sumar af þessum fjárfestingum hafi verið réttmætar en það verður líka að geta þess að fjármunir til þess að kaupa gæðin voru ekki til staðar hjá flestum sveitarfélögum.
Almenna reglan ætti að vera að menn spari og leggi til hliðar á tímum góðæris og búi sig undir framtíðina og þá sér í lagi þá sveiflur sem alþekktar eru hérlendis. Því miður var það ekki reynslan og það má segja að þetta hafi líka gilt um hinn almenna borgara að menn hafi eytt meira en þeir hafi aflað.
Í dag er svo komið að sveitarfélögin eru að hækka álögur og gjöld til þess að mæta auknum útgjöldum sínum og eru að sögn að skera niður í velflestum málaflokkum. Ég held reyndar að það sé oft seint í rassinn gripið því laun hafa lækkað og flestir tekjurstofnar hafa þar að auki minnkað að raungildi og því fyrirjsáanlegt að sársaukinn við tekjuöflun verði langvinnur.
Í Morgunblaðinu er dæmið tekið af Orkuveitu Reykjavíkur og byggingunni á glæsihýsinu sem dæmi um óraunhæfa fjármálastjórn, og það má svo sannarlega bera víðar niður eins og dæmin um Árborg, Álftanes og fleiri sveitarfélög sýnir.
Grundavallaratriðið er að þeir kjörnu fulltrúar sem að fara með stjórn á skattfé og almanna gæðum hafi vit fyrir okkur hinum. Því miður hefur það ekki verið raunin og reynslan sýnir að reikningurinn er sendur áfram í formi hækkunar á töxtum fyrir flesta þjónustu. Það er hins vegar áleitin spurning hvort að slíkt gangi til lengdar þá sér í lagi í því árferði sem nú ríkir þar sem almennur tekjusamdráttur og niðurskurður er staðreynd.
Auðvitað vilja allir sjá góða skóla og leikskóla rekna af hæfu starfsfólki, vel launuðu og vel menntuðu, sterkt velferðarnet þar sem ölduruðum og þeim sem minna megasín er tryggð sú þjónusta sem sómi er af. Spurning er hinsvegar hvort að menn séu búnir að spila rassinn úr buxunum eins og dæmin sanna.
Það er tálmynd ein að halda að ætla að rekstur og þjónustgæði muni aukast á næstu árum. Eitt gott dæmi er öryggi á vegum úti og almanna leiðum þegar veður eru válynd eins og dæmin sýna úr Reykjavík nýverið. Það eru ekki til fjármunir til þess að sinna þessari þjónustu svo sómi sé af og það er ljóst að sveitarfélög þurfa að hagræða enn frekar í sínum rekstri með niðurskurði og breyta útfærslum og skera enn frekar niður í yfirstjórn og launakostnaði. Þetta er hinn kaldi veruleiki því ekki gengur lengur að sópa syndunum undir teppið!
Sveitarstjórnarkosningar | Breytt s.d. kl. 17:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Farsæld til framtíðar á Seltjarnarnesi
29.5.2010 | 17:58
Farsæld
Íbúar á Seltjarnarnesi hafa notið þess að hafa haft framsýna og sterka leiðtoga við stýrið og nægir þar að nefna einn farsælasta sveitarstjórnamann á Íslandi, Sigurgeir Sigurðsson, fyrrum bæjarstjóra og samherja hans. Auðvitað var það ekki alltaf dans á rósum að stýra litlu og metnaðarfullu bæjarfélagi. Stundum er hollt að líta til baka og skoða það sem áunnist hefur á síðustu árum og áratugum. Þetta gerðist ekki allt í gær! Það hefur tekið áratugi að byggja upp innviði samfélagsins á Seltjarnarnesi og það vita flestir sem að hafa fylgst með vexti bæjarins. Lykilatriðið er að menn hafa ekki ráðist í meira heldur en þeir hafa getað staðið undir. Á síðustu árum má kannski segja að margar krítískar ákvarðanir hafi verið teknar en þær voru samt ekki teknar að láni eins og víða og það er kjarni málsins.
Síðan 1962 hafa íbúar Seltjarnarness veitt Sjálfstæðisflokknum á Seltjarnarnesi skýrt umboð til þess að starfa í þágu íbúanna, og mér segir svo hugur að margir hafi ekki eingöngu kosið eftir flokkspólitískri línu heldur fylgt skynseminni og valið þá sem þeir hafa treyst hvað best til þess að hámarka hag bæjarbúa. Það þarf ekki annað en að horfa á alla framkvæmdirnar við skólana, leikskólana, íþróttamannvirkin og sundlaugina til þess að skilja að það hefur verið reynt að þjónusta íbúana. Það er af mörgu öðru að taka en ég læt vera að rekja það hér.
Umhverfis- og skipulagsmál
Eitt brýnasta hagsmunamál íbúanna á Seltjarnarnesi eru umhverfis- og skipulagsmál enda eru landgæðin takmarkandi þáttur. Hvað sem allri uppbyggingu líður þá mega menn ekki gleyma því að þegar að pólitíkinni sleppir þá er eitt mikilvægasta hagsmunamál íbúanna fólgið í verndun lífríkisins og bættu skipulagi á Seltjarnarnesi. Lífsgæðin eru ekki eingöngu mæld í því sem eytt er í rekstur kerfisins heldur í þeim miklu náttúrugæðum sem til staðar eru á Seltjarnarnesi og ljóst að það þarf að halda vel á málum í framtíðinni. Það þarf líka að koma lífi inn á Hrólfsskálamelinn að nýju og vinna sig út úr vandamálunum þar enda virkar það skrítið að engir séu íbúarnir þar.
Af fjárhag
Mikið hefur verið rætt um fjárhagsstöðu Seltjarnarnesbæjar undir það síðasta og þá með neikvæðum formerkjum og þar hafa framsóknarmenn á Seltjarnarnesi verið fremstir í flokki að gagnrýna. Ég get reyndar tekið undir það að ákveðin hættumerki eru í rekstrinum hjá Seltjarnarnesbæ þar sem 85% af skatttekjum fara í beinan rekstur, laun og launatengd gjöld. Þetta er auðvitað áhyggjuefni og það er ljóst að það verður að hagræða verulega og finna nauðsynlegt jafnvægi fyrir bæjarsjóð.
Það segir sig sjálft að það er ekki hægt að halda áfram á sömu braut, tekjustofnarnir leyfa það ekki og það eru engar forsendur í spilunum aðrar en að hagræða í rekstrinum. Þetta á ekki bara við um Seltjarnarnes heldur gildir þetta um flest bæjarfélög í landinu miðað við núverandi efnahagsforsendur.
Framsóknarflokkurinn á Seltjarnarnesi hefur gagnrýnt fjárhagsstjórnina á Seltjarnarnesi en þeir hafa ekki bent á neinar leiðir til þess að skera niður í rekstrinum. Það sama á við um Samfylkinguna á Seltjarnarnesi. Af hverju geta menn ekki talað hreint út og sagt að það þurfi t.d. flatan niðurskurð í rekstrinum í stað þess að segja við kjósendur að álögur verði ekki hækkaðar. Hvað þýða slíkar yfirlýsingar frá framboðum sem að koma fram á síðustu metrunum? Hafa menn ekkert lært? Það verður ekki bæði sleppt og haldið!
Um hvað snýst málið
Spurningin er: Hverjum treystum við til þeirra verka sem framundan eru? Ég er í engum vafa með það að Sjálfstæðismenn munu taka til hendinni og hagræða í rekstrinum. Það þarf að gerast af ábyrgð og með skilningi á rekstri bæjarins. Lykilkrafan í dag er ráðdeild og aðhald!
Sveitarstjórnarkosningar | Breytt 27.6.2010 kl. 20:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)