Eru þetta framtíðarleiðtogarnir?

Það er alltaf gaman að fylgjast með kosningum og sjá síðan hvað kemur upp úr kjörkössunum. Lýðræðið í kosningum er oft þyrnum stráð. Kjósendur fá oft aðra útkomu heldur en þeir væntu og oft á tíðum er lýðræðið annað eftir kosningar. Ég velti því fyrir mér eftir gærkvöldið hvernig framtíðin lítur út í Reykjavík og hvaða leiðtoga ég sé í fólkinu sem er að berjast um völdin. Mín greining er hér að neðan:

Besti flokkurinn - Jón Gnarr - Skemmtilegur, alþýðulegur, óvenjulegur leiðtogi sem að mun gera óvænta hluti og öðruvísi hátt en menn hafa áður gert. Það á þó eftir að koma í ljós hvort að veruleikinn verði annar þegar að menn verði komnir við stýrið.

Samfylkingin - Dagur B. Eggertsson - Dagur kemur vel fyrir og virðist ákveðinn og hefur fastar skoðanir á málum en hann virðist líða fyrir það að vera of tengdur inn í landsstjórnina. Hefur ekki náð að sameina fólk að baki sér og það háir honum.

Framsóknarflokkurinn - Einar Skúlason - Einar virðist vera jarðtengdur en hann er greinilega rangur maður á röngum tíma og í rangri borg. Hann virðist eiga erfitt með að koma skoðunum sínum á framfæri og á erfitt með að tala til fólksins á traustvekjandi hátt. Kannski að reynsluleysi  hái honum og hann vantar meiri stuðning frá forystunni.

Sjálfsstæðisflokkurinn - Hanna Birna Kristjánsdóttir - Sennilega besta sending sem að Sjálfstæðisflokkurinn gat fengið í Reykjavík. Virðist eiga gott með að hrinda hlutum í framkvæmd og kemur málunum frá sér á skýran hátt. Virðist líða fyrir ástandið í þjóðfélaginu en hún er sennilega besti kosturinn í stöðu borgarstjóra nú um stundir.

Vinstri Grænir - Sóley Tómasdóttir - Skellegg kona sem að hittir ekki í mark. Fer fram með öfgafullum málflutningi eins og það að segja að hún muni ekki starfa með ákveðnum flokkum eftir kosningar. Slíkar yfirlýsingar eru ekki leiðtoga sæmandi, sérstaklega þegar að viðkomandi hefur ítrekað að hún standi fyrir kvenfrelsi en útlokar síðan að ræða við aðra kvenleiðtoga til þess að skapa sátt um stjórn borgarinnar.

Kosningar eru tímapunktsathuganir og þar fá íbúarnir að segja sína skoðun. Ég velti því hinsvegar fyrir mér hvaðan fólkið kemur sem að sækist eftir að stjórna málefnum okkar hinna og hvað það er sem að drífur það áfram. Er það reynsla úr einhverjum rekstri, störfum í þágu hins opinbera eða hvort menn hafi hreinlega bara verið listamenn á launum og stundað kaffihúsin í henni Reykjavík? Stjórnmálin fara ekki í manngreiningarálit þegar að kemur að því að velja forystumennina, þeir eru læknar, femínistar, atvinnustjórnmálamenn, kennarar, lögfræðingar nýskriðnir úr skóla o.s.frv. Það er einhvern veginn svo að þessir ,,grand old men" hafa horfið og ný kynslóð fólks með takmarkaða reynslu hafi stigið upp.

Ég er fyrrum vesturbæingur af gamla skólanum sem að nægði að hafa hrein torg og fagra borg, og geta gengið öruggur um stræti borgarinnar. Nokkuð sem að virðist vanta núna, svo einfalt er það!

 


mbl.is VG útilokar samstarf við Sjálfstæðisflokk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Gnarr náði á forsíðu 20 minutes í Lausanne

Það er alltaf gaman að sjá þegar að landanum tekst vel upp. Margan stjórnmálamanninn dreymir um að verða frægur, jafnt heima sem í útlöndum. Kannski að Jóni Gnarr sé að takast þetta tvennt þ.e. að verða afburða stjórnmálamaður og afburða grínísti sem tekið er eftir. Jón Gnarr rataði á forsíðu blaðs í Lausanne í Sviss eins og sést hér að neðan. Það er vonandi að frægðin standi lengur en í 20 mínútur!

Jón_Gnarr

 

 

 

 


Efnahagur og velferð þjóðar

Það er að koma í ljós það sem flestir vissu fyrir þ.e. að gífurlegur samdráttur yrði í einkaneyslu landsmanna eftir þær auknu álögur sem að lagðar hafa verið á fyrirtæki og fjölskyldur þessa lands. Það þarf ekki að koma á óvart, en þær tölur sem birtar hafa verið segja manni að um ,,efnahagslegt svartnætti" sé að ræða. Til dæmis hefur samdráttur í sölu á húsgögnum mælst allt að 60% og nærri því helmings samdráttur í sölu á raftækjum og það þarf ekki að tala um endurnýjum bíla o.s.frv. Það getur hver maður skilið að það þarf að reka hið opinbera og afla fjár til þess að standa undir samneyslunni. Ég verð að segja að ég skil ekki fjármálaráðherra að hreykja sér af því að hafa náð í fleiri krónur með skattahækkunum, þegar eftir stendur að sennilega er um mesta samdrátt að ræða á lýðveldistímum. Kannski fer ég rangt með en þá leiðréttir einhver góður maður það.

Við erum einungis að ræða um skammtímaáhrifin og þau segja ekki nema takmarkaða sögu. Hvað gerist þegar að samdrátturinn verður langvarandi og umsvifin í hagkerfinu halda áfram að minnka og tekjustofnar hins opinbera hrynja, á þá að róa á sömu mið? Er ekki verið að skapa efnahagsástand sem að dregur máttinn og viljann úr fyrirtækjum og fjárfestum til þess að standa í atvinnustarfssemi, og vissir aðilar telja jafnvel betra að hætta rekstri þar sem að tekjurnar fara að stærstum hluta í fastan kostnað.

Efnahagsstjórnin í núverandi árferði þyrfti að snúast um að lækka skatta og skapa ríkinu langtíma tekjustofna. Sá bóndi sem að hlúir ekki að bústofni sínum missir fljótt þann ávinning sem að skepnurnar gefa. Er það ekki einmitt sem er að gerast núna í íslensku samfélagi? Er þetta sú velferð og fyrirhyggja sem við viljum á Íslandi framtíðarinnar?

 


Lífið undir pálmatrjám

Þeir hafa verið strembnir síðustu 10 dagarnir, sérstaklega eftir að Eyjafjallajökull tók að gjósa. Aldrei grunaði mig að ég gæti orðið ,,tepptur" vegna eldgoss. Ég hélt að hefði verið búinn að reyna allt, líka fastur í göngunum á Oddskarði. Man þá tíð þegar ég sat veðurtepptur í skólastofunni í Verkmenntaskólanum í Neskaupstað, í þá daga hafði maður alltaf upp á gamla segulbandið að hlaupa. Þá var hlustað á Bubba kóng og sungið með. Þeir dagar voru ógleymanlegir enda réðu menn ekkert við veðrið eins og þekkt er á Íslandi. Nú er það aftur á móti eldgos sem að aftrar för úr landi Kristófers Kólumbusar, eins af dýrlingum þeirra heimamanna þar sem að fyrsta kirkjan í Vesturheimi reis í Santo Domingo í Dóminikanska Lýðveldinu.

Það var ljúft lífið undir pálmatrjánum og stundum fékk ég pirring og velti því fyrir mér hvort að ég ætti að lesa skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis eður ei. Á endanum fannst mér nóg að fletta íslenskum vefsíðum og skynja hrynjandann í fólkinu sem að byggir landið, fjölmiðlamönnum sem að vita allt betur í dag en í gær og svo sjá síðan skrif hinna bloggaranna um ástandið. Lífið er val, stundum er góð lesning betur geymd til seinni tíma, sérstaklega þegar að hlý hafgolan leikur um mann á fjarlægri strönd þar sem að hvinurinn í pálmunum gefur taktinn á tímalaus stað.

Eftir 32 tíma ferðalag þá náði ég loks náttstað mínum á miðvikudagskvöld og þótti heppinn þar sem að margir bíða enn eftir því að flugfélögin nái að vinda ofan af kúfnum. Það var gott að sjá Birnu betri á flugvellinum og skynja að lífið heldur áfram þrátt fyrir eldgos.

 


Fastur í paradís

Punta Cana

Það er skrýtið að vera landfastur í Dóminikanska Lýðveldinu vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Því miður er ekkert við því að gera en hér eru fallegar strendur í Punta Cana og sannkallaður aldingarður þar sem nóg er af öllu. Auðvitað eru þeir sem eru hérna og þekkja mig að kenna mér um þetta allt saman, en þeir segja að núna sé Ísland að beita CASH and ASH áhrifum sínum á alþjóðasamfélagið. Það eru samt ekki uppörvandi fréttir hérna því að menn þurfa að bíða í viku til tíu daga til þess að komast í heimahöfn ef allt gengur samkvæmt áætlun. Það eru reyndar flestir búnir að fá nóg enda búnir að vera hérna í 9 daga vegna stjórnar og framkvæmdarstjórnarfunda. Núna er bara einlæg von að maður komist yfir hafið og heim.


Þarf foringinn ekki að líta til baka

Það hefur aldrei verið öfundsvert að gegna opinberu embætti og bjóða fram krafta sína í þágu samfélagsins. Helsti vandi leiðtoganna í stjórnmálunum þessa dagana birtist helst í því að það eru fáir fylgjendur sem hreinlega trúa á þá framtíðarsýn sem boðuð er - vantraustið virðist ráða ríkjum á mörgum víðstöðvum. Það kom mér svo sem ekkert á óvart að forsætisráðherra sé ósáttur við þá staðreynd að kjörfylgi stjórnarflokkanna mælist lítið þessa dagana eins og hann lýsir í viðtali í Fréttablaðinu í gær.

Einn helsti vandi forsætisráðherra í dag fólgin í þeirri staðreynd að það er erfitt að leiða og stýra málefnum landsmanna ef þeir eru á öndverðum meiði í flestum meiriháttar málum. Hlutirnir í stjórnmálunum verða ekki skýrari en það. Það þurfti ekki að segja kaupmönnunum í Silla & Valda hvað væri best, hagsmunir viðskiptavinanna voru alltaf í fyrsta sæti.

Stjórnmálamenn sem að ganga ekki í takt við vilja þjóðar sinnar, geta ekki dregið upp skýra framtíðarsýn, né sýnt með afgerandi hætti að þeir séu hæfir til þess að leiða þjóðina áfram ættu að líta til baka og sjá hverjir eru í stuðningsliðinu. Það er ekkert rangt við að viðurkenna að hafa mistekist ætlunarverkið en það er sínu verra að neyða afarkostum upp á þá sem ekki vilja þiggja dúsuna. Af ávöxtunum skulum við þekkja þá hljómaði iðulega hjá Silla & Valda, það sama á við um í dag og stjórnamálamenn verða að skilja að kjósendur taka ekki endalaust við skemmdum eplum.


Af frændsemi í norðurhöfum

Það hefur sýnt sig í gegnum tíðina að það er aldrei gott að gera samning á forsendum þriðja aðila eða vera í þeirri stöðu að geta sig hvergi hrært. Hugtakið norræn samvinna hefur kannski aldrei gagnast íslenskri þjóð með afgerandi hætti. Það sem vekur hins vegar athygli er að okkur hefur mistekist að koma skilaboðum okkar á framfæri svo mark sé á tekið. Auðvitað segja embættis- og stjórnmálamennirnir okkur annað. Kannski hefði verið betra að opna upplýsinga- og samskiptaskrifstofur í þeim löndum þar sem eigum hvað mest undir, í stað þess að vera að eyða himinháum upphæðum í rekstur skilanefnda, lögfræðinga og endurskoðenda á óraunverulegum töxtum (ekki illa meint). Í samskiptum mínum við erlenda aðila sem eru margir þá fæ ég oft spurningar um það hvort Ísland sé ekki gjaldþrota og hvort að fólk hafi yfirleitt í sig og á!

Er það ekki einmitt málið að okkur hefur mistekist að kynna hagsmuni okkar á afgerandi hátt. Ef málflutningur okka og málstaður er svo góður eins og við höfum haldið fram afhverju styðja þá norrænu frændþjóðirnar okkur ekki betur? Hefur núverandi staða ekki sýnt okkur Íslendingum að við verðum í framtíðinni að treysta á að misstíga okkur ekki á efnahagssviðinu heldur vera sjálfum okkur næg.

Það er alltaf sárt að reka sig á að vinirnir bregðist á ögurstund, það þýðir þó ekki að lífinu sé lokið. Ísland er ekki nafli alheimsins eins og fjölmiðlar og ferðamálafyrirtækin hafa keppst við að segja okkur. Við erum lítið land með mikilar auðlindir, vel menntaða þjóð sem býr við mikla lýðræðishefð. Við getum ræktað garðinn víðar en á Norðurlöndum. Lífsbjörgin í norðurhöfum verður að byggja á íslenskum raunveruleika en ekki frændsemi sem talað er um á hátíðarstund.

 

 


mbl.is Sænsk lán háð Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síðasti vagninn farinn í bili

Ég skil það svo sem vel að menn séu óánægðir eftir að hafa misst af síðasta vagninum. Það er alltaf erfitt að koma prúðbúinn í partýið þegar langt er á það liðið og ætla sér að starta nýjum veisluhöldum.

Kannski hugsun Sir Winston Churchill sé gott innlegg í dæmið um það hvernig nálgunin hefur verið í Icesave málinu:

 

What could you hope to achieve except to be sunk in a bigger 
and more expensive ship this time

Sir Winston Churchill to Admiral Mountbatten


mbl.is „Vorum nálægt samkomulagi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samstöðustjórnmál það sem koma skal?

Það læðist að manni sá grunur að forystumenn ríkisstjórnarinnar hafi leikið af sér með því að sitja heima í þessum kosningum og þannig gefið þjóðinni langt nef. Forystumennirnir láta eins og ekkert sé og virðast ekki skynja hjartslátt þjóðar sinnar, ekki frekar en fyrri stjórnvöld gerðu rétt fyrir hrun. Það segir mér svo hugur að það sé vaxandi undiralda gagnvart stjórnarflokkunum vegna þess hvernig þeir hafa umgengist fjöreggið. Kannski stefnum við til skamms tíma að samstöðustjórnmálum þar sem breið sátt þarf að ríkja um aðgerðir í helstu efnahags- og framfaramálum þjóðarinnar, Icesave, atvinnuppbyggingu o.s.frv. Það kann að vera að það sé besti leikurinn í stöðunni? Þjóðin kallar forystumennina til ábyrgðar og til þess að starfa á ábyrgan hátt að framförum og frekari velferð, finna lausnir sem gagnast fjölskyldum og fyrirtækjum þessa lands á næstu mánuðum. Of lengi hefur verið beðið eftir afgerandi lausnum og of mikill tími hefur farið til spillis. Nú er mál að girða í brók og stjórnmálamenn taki sér tak og finni aðrar lausnir en skattpíningu og flatan niðurskurð!


mbl.is Ríkisstjórnin þarf að þétta raðirnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórn Íslands verður að ganga í takt við vilja þjóðarinnar

 Það er rétt skilið að málið er innanríkismál Íslands en menn verða auðvitað að setja hlutina í samhengi. Engin ríkisstjórn á lýðveldistímanum hefur fengið eins afgerandi skilaboð frá þjóðinni. Auðvitað getur fjármálaráðherra haldið áfram að miðla málum en hann verður að hlusta á vilja þjóðarinnar og stíga gætilega til  jarðar í þeim samskiptum sem framundan eru við Breta og Hollendinga. Þjóðin hefur sagt skýrt NEI - stjórnvöld verða að hugsa næsta leik og ná afgerandi niðurstöðu. Það er ekki óeðlilegt að almenningur velti því fyrir sér hvort að ríkisstjórn Íslands sé í raun umboðslaus í málinu og það þurfi að ná mun breiðari samstöðu um næstu skref og framhjá því geta stjórnvöld ekki litið. Þessi fyrsta þjóðaratkvæðagreiðsla á lýðveldistímum hefur einnig sent stjórnmálaöflum samtímans skilaboð um að það þurfi að auka beina þátttöku landsmanna í lýðræðinu. Við lifum á nýjum tímum þar sem ný gildi og aukin lýðræðisvitund hafa markað djúp spor í samfélaginu. Niðurstaða kosninganna leysa ekki málin, en þau sýna svo ekki verður um villst að þjóðin hefur sent skýr skilaboð og þau eru vantraust á það hvernig haldið hefur verið á málum.

Ég velti því fyrir mér hvort að forystumenn ríkisstjórnar Íslands sem að kusu ekki í þessum kosningum hafi gert stór misstök sem forystumenn á pólitíska sviðinu, orðið uppvísir að pólitískum afglöpum. Tíminn mun leiða í ljós hversu mikil hyggindi það voru að mæta ekki á kjörstað! Hvernig getur fólk kosið leiðtoga sem að snýta lýðræðinu!


mbl.is Aðeins málefni Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband