Góð grein og vel ígrunduð rök hjá Reimari

Grein Reimars er að mínu viti þarft innlegg inn í Icesave umræðuna. Umræðuna á ekki að byggja á tilfinningum heldur rökum.  Það ríður á að hver einstaklingur taki ábyrga afstöðu í Icesave málinu, en hver getur það í dag þegar það er búið að kljúfa þjóðina í fylkingar og alið er á samstöðuleysi.
mbl.is Dómsmál minni efnahagsleg áhætta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frelsi og föðurlandsást

Það hefur tekið langan tíma að venjast vopnaburði hermanna á götum úti í Sviss, gildir þá einu hvort um er að ræða lestir, strætisvagna eða á veitingahúsum. Ég verð að viðurkenna að það er sérstakt að sjá dátana á McDonalds inn á milli barnanna í biðröðinni eftir hamborgurunum eins og hverjir aðrir með vopnið framan á sér.  Þetta hefur engin áhrif á mann í dag enda er maður orðinn vanur þessu eins og flestir hérna. 

Frelsi og föðurlandsást er dýru verði keypt hjá þessari friðsömu þjóð sem að eyðir allnokkrum hluta þjóðartekna sinna til þess að viðhalda her sínum á lofti, láði og legi. Ungir menn sinna skyldum sínum og starfa í þágu ættjarðarinnar í þegnskylduvinnu og eru því einatt á ferðinni.

LIBERTÉ ET PATRIE

 


mbl.is Svisslendingar kjósa um byssueign
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af ruslatunnuskattinum í Reykjavík og grínið sem breyttist í alvöru

’’Lofstafi fornhelga flytjum rykinu og reyknum“ (Sigfús Daðason: Útlínurbakvið minnið.) 

 ,,Hinn alræmdi gluggaskattur Vilhjálms þriðja Englandskonungs, sem fyrst kom til sögunnar árið 1696, er gjarna nefndur sem dæmi um óréttláta skattlagningu sem hvetur líka til óskynsamlegra viðbragða. Upphæð skattsins réðst af fjölda glugga á húsum sem átti að endurspegla efnahag borgaranna. En byggingarlag húsa er ólíkt, sum hafa fáa stóra glugga, önnur marga litla, og munurinn segir ekki endilega neitt um efnahag, hvað þá afkomu íbúanna.Skatturinn var gjarna nefndur „ljós- og loftskattur“, enda múruðu húseigendur gjarna upp í gluggana til að forðast hann, en juku í staðinn lýsingu innandyra með tilheyrandi mengun. Ljósið og loftið véku fyrir rykinu og reyknum. Lofta- og ljósaskatturinn var endanlega aflagður um miðja nítjándu öld.En nú hefur borgarstjórinn í Reykjavík fundið sér fyrirmynd í Vilhjálmi þriðja. Hyggst hann leggja sérstakan ruslaskatt ásuma borgarbúa, þá sem eru svo óheppnir að götuhlið húsa þeirra snýr mót sólu á daginn. Munurinn á gluggaskatti Vilhjálms konungs og ruslaskattinum nýja er þó sá að meðan skattur Vilhjálms konungs átti að vera í einhverjum tengslum við efnahag borgaranna ræðst það af tilviljun einni á hverja ruslaskattur lærisveinsins leggst.   Líkt og þegnar Vilhjálms þriðja munu þegnar borgarstjóra auðvitað reyna að forðast skattinn.

Vorkoman þetta árið mun því markast af óhrjálegri tunnuþröng á gangstéttum borgarinnar, sem misþýðir vorvindarnir munu svo feykja til og frá, rottum og mávum til ánægju og ábata, en öskukörlum og íbúum til ama og tafa. Svo verður dregið fyrir og gluggum lokað fyrir skynrænum áhrifum skattsins nýja – og ljósinu og loftinu um leið.Ábendingum um augljósa vankanta þessarar nýju skattlagningar svara hirðmenn borgarstjóra með hástemmdum moðreyk um hvílíkt framfaraspor furðuskattur þessi marki.Kannski er fyrirmynd þeirra Rómverjinn Marcus Cornelius Fronto, sem orti rykinu og reyknum lofsöng þann er Sigfús Daðason vitnar til í Síðustu bjartsýnisljóðum. En munurinn er að Fronto var að grínast – svona eins og borgarstjórinn í Reykjavík kunni einu sinni mjög vel. ’’ Grein eftir Þorkel Siglaugsson í mbl. 23. janúar 2011 

 


Eitt stórt krossmark og skammdegi hugarfarsins

,,Tillagan er til íhugunar fyrir þá, sem ritskoða sjálfa sig í sífellu, til að styggja örugglega engan. Þeir sem öllum vilja þóknast hefðu auðvitað hringt til Brussel til að fá góð ráð. Þá hefði Economist líklega ekki skammað okkur fyrir hörku. Kjarni málsins er þó sá að við verðum að gæta hagsmuna okkar sjálf. ESB mun ekki gera það. Ef við hefðum ekki „verið væn við okkur sjálf", þá hefði enginn verið það. Guð hefði þá mátt gera eitt stórt krossmark yfir Ísland. Svo fór ekki og landið er nú tekið að rísa. Allt er þetta rekjanlegt en má þakka þeim Geir, Davíð og Baldri nokkuð í því skammdegi hugarfarsins sem nú ríkir? ''

Grein eftir Ragnar Önundarson mbl. 22. janúar 2011 í umræðunni um Icesave og setningu neyðarlaganna.

 


Lífið á ströndinn getur verið varasamt

Hef farið víða á síðustu mánuðum og haft lítinn tíma til að blogga vegna anna en læt hérna fljóta eina mynd frá ferð minni til Sri Lanka sem að sýnir glögglega hversu mikil kraftur var í tsunami flóðbylgjunum sem að skullu á ströndum Thailands, Sri Lanka, Maldives eyja, Indónesíu og fleiri ríkja. Ég hef verið að fylgja eftir uppbyggingarstarfi sem að við hófum 2005. Hér að neðan er mynd af hóteli sem að varð illa úti en  flóðbylgjan fór alveg yfir hótelið og flestir sem þar voru létu lífið. Það er erfitt að skilja þessa krafta en myndin segir meira en mörg orð.

Hótelið á ströndinni


Völlur hins himneska friðar

Austurvöllur er að verða vígvöllur eins og sést á ástandinu sem að hefur ríkt frá því að Alþingi Íslendinga var kallað saman sl. föstudag. Mér sýnist að hin eina sanna skjaldborg á Íslandi hafi núna verið reist í kringum Alþingi.  Ástandið er eldfimt við ,,Völl hins himneska friðar" þar sem þjóðin kallar á aðgerðir!

Gott hjá Gana

Gott hjá Gana að leggja Bandaríkjamenn í kvöld og tryggja þannig Afríku áframhaldandi þátttöku á HM. Það verður gaman að sjá Gana og Úrúgvæ og ég ætla að leyfa mér að spá því að Gana fari áfram í undanúrslitin. Sjáum hvað setur! Það er hins vegar ljóst að það verður dansað á götum Accra í nótt og á morgun líka.

Hér í Sviss eru menn hættir að þeyta horn í tíma og ótíma og samgöngur komur í lag að mestu leyti en ég óttast að ef Portúgalir komast áfram í undanúrslitin þá verði lítið um svefn hér í Lausanne þar sem að fjöldi Portúgala býr, en þeir eru þekktir fyrir að þeyta bílflauturnar í tíma og ótíma.

 


mbl.is Gana áfram eftir framlengdan leik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ferð án fyrirheits?

Það er ekki nema von að umrædd frétt veki athygli og ekki má heldur gleyma ályktuninni sem að sett var fram. Það er eins og það hafi fæðst nýr flokkur með nýjum hugsjónum og sá flokkur slær annan takt og fer aðrar leiðir en hann boðaði með sterkum hætti í aðdraganda síðustu alþingiskosninga. Seneca sagði að ef menn legðu úr höfn og ef menn vissu ekki hvert stefna bæri þá skipti ekki máli hvaðan vindurinn blési. Eru Vinstri grænir flokkur í ferð sem átti upphaf með skýrum markmiðum og þekktum áfangastað eða eru kjósendur flokksins í röngum vagni á rangri vegferð? Kjósendur flokksins hljóta að spyrja hvort að það sé hægt að nota skiptimiðann til þess að leiðrétta stefnuna en því miður gerist það bara á 4 ára fresti.


mbl.is Gagnger endurskoðun á umsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erum við á réttri leið?

Það eru margir sem að hafa miklar áhyggjur af efnahagsástandinu í Evrópu þessa dagana og þá sérstaklega í PIIGS-löndunum, þ.e. Portúgal, Ítalíu, Írlandi, Grikklandi og Spáni. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er á hliðarlínunni og það má segja að skuldakreppann á Grikklandi og í Portúgal segi allt sem segja þarf. Þessi lönd hafa eytt um efni fram í langan tíma og verið með viðvarandi halla á fjárlögum og senn kemur að skuldadögum. Til að mynda hefur Angela Merkel forsætisráðherra Þýsklands sagt að síðasta sameiginlega aðgerðin í Evrópu vegna skuldavanda þessara ríkja hafi einungis keypt þeim lengri tíma án þess að takast á við  hinn raunverulega vanda.Ég var að lesa sögu Margrétar Tatcher, fyrrum forsætisráðherra og leiðtoga Bretlands, og sennilega eiga ummæli hennar vel við á Íslandi í dag sem og í PIIGS-löndunum en hún sagði: ,,Vandamálið með sósílismann er að á endanum klára menn peninga annarra''. Er þetta ekki málið í dag? Hið opinbera hefur þanist út á síðustu árum og það virðist sem að þessa dagana séum við enn að ríkisvæða í stórum stíl, allt á kostnað skattborgaranna í stað þess að hagræða í ríkisrekstrinum sjálfum.

Ég velti því fyrir mér hvort að Tatcher hafi ekki rétt fyrir sér þar sem að menn þurrka á endanum upp skattberandi einstaklinga og fyrirtæki sem að sjá sér ekkur lengur hag í því að fjárfesta eða að eiga í viðskiptum sín á milli í núverandi árferði. Þegar skattastefnan hefur dregið allan mátt úr fyrirtækjum og einstaklingum og raunvextir eru neikvæðir þá er eðlilegt að spyrja hvort að ríkið geti áfram róið á sömu mið? Er hægt að skattleggja sig út úr kreppunni spurði einhver? Er ekki stærsta ógnin nú um stundir að skattastefnan dregur úr arði hins opinbera af frjálsum viðskiptum og fjárfestingum og leiðir auk þess til minni umsvifa í  hagkerfinu, og á endanum taka sífellt  færri þátt í að skapa verðmætin? Er atvinnustefna í formi ríkisreksturs, háir skattar og ríkisafskipti í formi samskeppni við einkaaðila líklegt til árangurs í núverandi árferði? 

Lykilatriðið í stjórnmálum dagsins ætti að vera að forða því að hagkerfið staðni. Það þarf að skapa ný störf, tryggja vöxt og viðgang lítilla og meðalstórra fyrirtækja og varna því að bankarnir komist upp með það að láta fjármagn sitt liggja inn á reikningum í Seðlabanka Íslands þjóðinni til ógagns. Það þarf skynsama skattstefnu sem að tryggir að almenningur og fyrirtæki í landinu sjá sér hag í því að halda efnahagshringrásinni gangandi. Þegar einn hlekkur slitnar í keðjunni þá er hætta á ferðum og það gildir það sama um bóndann og fjármálaráðherrann þeir þurfa að vita hvenær á fara til mjalta. Þjóðin situr uppi með laskað stjórnmálaástand auk klofnings á mörgum sviðum samfélagsins og hún kallar eftir forystu til þess að stýra okkur inn í nýtt skeið framfara og velferðar.  Það er létt mál að eyða peningum annarra en það tekur enda eins og staðan í PIIGS-löndunum hefur sýnt okkur. Hættum að eyða peningum annarra og göngum til verka af ráðdeild og skynsemi!


Farsæld til framtíðar á Seltjarnarnesi

Farsæld 

Íbúar á Seltjarnarnesi hafa notið þess að hafa haft framsýna og sterka leiðtoga við stýrið og nægir þar að nefna einn farsælasta sveitarstjórnamann á Íslandi, Sigurgeir Sigurðsson, fyrrum bæjarstjóra og samherja hans. Auðvitað var það ekki alltaf dans á rósum að stýra litlu og metnaðarfullu bæjarfélagi. Stundum er hollt að líta til baka og skoða það sem áunnist hefur á síðustu árum og áratugum. Þetta gerðist ekki allt í gær! Það hefur tekið áratugi að byggja upp innviði samfélagsins á Seltjarnarnesi og það vita flestir sem að hafa fylgst með vexti bæjarins. Lykilatriðið er að menn hafa ekki ráðist í meira heldur en þeir hafa getað staðið undir. Á síðustu árum má kannski segja að margar krítískar ákvarðanir hafi verið teknar en þær voru samt ekki teknar að láni eins og víða og það er kjarni málsins.

Síðan 1962 hafa íbúar Seltjarnarness veitt Sjálfstæðisflokknum á Seltjarnarnesi skýrt umboð til þess að starfa í þágu íbúanna, og mér segir svo hugur að margir hafi ekki eingöngu kosið eftir flokkspólitískri línu heldur fylgt skynseminni og valið þá sem þeir hafa treyst hvað best til þess að hámarka hag bæjarbúa. Það þarf ekki annað en að horfa á alla framkvæmdirnar við skólana, leikskólana, íþróttamannvirkin og sundlaugina til þess að skilja að það hefur verið reynt að þjónusta íbúana. Það er af mörgu öðru að taka en ég læt vera að rekja það hér.

Umhverfis- og skipulagsmál

Eitt brýnasta hagsmunamál íbúanna á Seltjarnarnesi eru umhverfis- og skipulagsmál enda eru landgæðin takmarkandi þáttur. Hvað sem allri uppbyggingu líður þá mega menn ekki gleyma því að þegar að pólitíkinni sleppir þá er eitt mikilvægasta hagsmunamál íbúanna fólgið í verndun lífríkisins og bættu skipulagi á Seltjarnarnesi. Lífsgæðin eru ekki eingöngu mæld í því sem eytt er í rekstur kerfisins heldur í þeim miklu náttúrugæðum sem til staðar eru á Seltjarnarnesi og ljóst að það þarf að halda vel á málum í framtíðinni. Það þarf líka að koma lífi inn á Hrólfsskálamelinn að nýju og vinna sig út úr vandamálunum þar enda virkar það skrítið að engir séu íbúarnir þar.

Af fjárhag

Mikið hefur verið rætt um fjárhagsstöðu Seltjarnarnesbæjar undir það síðasta og þá með neikvæðum formerkjum og þar hafa framsóknarmenn á Seltjarnarnesi verið fremstir í flokki að gagnrýna. Ég get reyndar tekið undir það að ákveðin hættumerki eru í rekstrinum hjá Seltjarnarnesbæ þar sem 85% af skatttekjum fara í beinan rekstur, laun og launatengd gjöld. Þetta er auðvitað áhyggjuefni og það er ljóst að það verður að hagræða verulega og finna nauðsynlegt jafnvægi fyrir bæjarsjóð.

Það segir sig sjálft að það er ekki hægt að halda áfram á sömu braut, tekjustofnarnir leyfa það ekki og það eru engar forsendur í spilunum aðrar en að hagræða í rekstrinum. Þetta á ekki bara við um Seltjarnarnes heldur gildir þetta um flest bæjarfélög í landinu miðað við núverandi efnahagsforsendur.

Framsóknarflokkurinn á Seltjarnarnesi hefur gagnrýnt fjárhagsstjórnina á Seltjarnarnesi en þeir hafa ekki bent á neinar leiðir til þess að skera niður í rekstrinum. Það sama á við um Samfylkinguna á Seltjarnarnesi. Af hverju geta menn ekki talað hreint út og sagt að það þurfi t.d. flatan niðurskurð í rekstrinum í stað þess að segja við kjósendur að álögur verði ekki hækkaðar. Hvað þýða slíkar yfirlýsingar frá framboðum sem að koma fram á síðustu metrunum? Hafa menn ekkert lært?  Það verður ekki bæði sleppt og haldið!

Um hvað snýst málið

Spurningin er: Hverjum treystum við til þeirra verka sem framundan eru?  Ég er í engum vafa með það að Sjálfstæðismenn munu taka til hendinni og hagræða í rekstrinum. Það þarf að gerast af ábyrgð og með skilningi á rekstri bæjarins. Lykilkrafan í dag er ráðdeild og aðhald!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband