Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Munu neytendur borga sektina á endanum?

Nú hefur Samkeppnisstofnun skilað lokaniðurstöðu og ákveðið að sekta Haga vegna ólögmætra viðskiptahátta á markaði og maður getur vel skilið Jóhannes í Bónus að hann er lítt glaður með þá sendingu svona rétt fyrir jól. Ég velti því fyrir mér hvort að það sé besta aðgerðin að nota sektir til þess að fyrirbyggja ólögmætar aðgerðir á markaði, sérstaklega þegar að smásalinn hefur yfirburðastöðu. Á endanum mun smásalinn hækka verð sitt eða breyta álagningarforsendum sínum til þess að ná inn fyrir sektinni og það þýðir náttúrulega að neytendur borga brúsann á endanum.


Að skerpa ímyndina

Það var gaman að koma til Vínar á sl. sunnudag. Jólaandinn svífur yfir myndarlega skreytta borgina og nóg að gera hjá kaupmönnunum að  því er virtist. Auðvitað var maður spurður spjörunum úr um ástandið á Íslandi og greinilegt að menn eru misvel með á nótunum, en rétt er að geta þess að það hefur ítrekað komið upp á þeim fundum sem að ég hef sótt  að fólk hefur rangar hugmyndir um ástandið. Það tekur þó steininn úr þegar að fólk heldur að það sé ekkert að bíta og brenna á Íslandi. Þetta er því miður staðreyndin sem að maður finnur fyrir í alþjóðasamstarfinu og fólk telur jafnvel að íslenska ríkið sé gjaldþrota. Mér segir svo hugur að heimsóknum erlendra ferðamanna til Íslands muni fækka enda hefur neikvæð fréttaumfjöllun skaðað íslenska hagsmuni og þá sér í lagi ferðaþjónustuna og þá sem að starfa í þeirri grein, en líklegt er að aðilar í tengdri þjónustu verði líka fyrir skakkaföllum. Það er í raun engin vitglóra í því að telja að Ísland sé ódýrt fyrir útlendinga þegar að gengisáhrifin eru komin inn í alla verðmyndum á vöru og þjónustu, t.d. hefur ferðin með flugrútunni hækkað um 80% á einu ári ef ég fer rétt með. Verð á flugi, veitingum og fleiru hefur einnig hækkað umtalsvert og menn mega ekki gleyma því að verð á sömu liðum í flestum öðrum löndum er mun lægra en gengur og gerist á Íslandi.

Það má líka gera að því skóna að nokkuð klúður hafi átt sér stað þegar kemur að ímyndar- og kynningarmálunum, sérstakalega eftir hrun bankanna og ljóst að það þarf miklu meiri vinnu og fagmennsku til þess að vinna upp þann skaða sem að landið hefur orðið fyrir vegna ákvarðanna sem voru teknar á einni helgi í október.  Umræðan um bankahrun og fjármálaóreglu mun verða tengt nafni Íslands í framtíðinni, það er bláköld staðreynd en það má ekki leggja árar og bát og bíða þess sem verða vill, heldur þarf að sækja markvisst fram í gegnum starfssemi á sviðum lista, vísinda, menningar og ekki má gleyma íþróttunum og æsku landsins í þessu samhengi. Sjálfstæð þjóð verður umfram allt að stuðla að samvinnu og samskiptum á þeim sviðum sem eru líkleg til þess að hjálpa til við að efla ímyndina og græða sárin sem rista djúpt í íslenskt samfélag þessa dagana. Það er hægt en það mun taka tíma og til þess þarf vilja og samstillt átak landsmanna allra.


Að vita eða vita ekki og stjórnmál líðandi stundar

Það hefur verið sérstakt að fylgjast með framgöngu Viðskiptaráðherra undanfarið, þ.e. ef marka má fréttir af atburðum síðustu vikna. Auðvitað skolast alltaf eitthvað til og jafnvel rangt farið með staðreyndir, en það verður að segjast eins og er að Viðskiptaráðherra hefur of oft verið í fréttum þegar minnst hefur verið á að hann hafi ekki vitað eitthvað eða ekki verið kunnugt um eitthvað. Það er ekki gott fyrir stjórnmálamann að vera tengdur of mikið við slíka umræðu án þess að skaðast af henni. Það er í verkahring stjórnmálamanna að vita, sérstaklega þegar menn hafa yfir heilu ráðuneyti að segja og með aðstoðarmenn og ritara sér til hjálpar. Því hefur oft verið haldið fram að góður ritari væri sá eða sú sem að væri alltaf skrefi á undan og með svörin á reiðum höndum þegar á þyrfti að halda. Það virðist sem að aðstoðarmaður ráðherra sé núna farinn að skilja leikinn og er hann mættur í fjölmiðla skömmu seinna til þess að útskýra vanþekkingu ráðherrans á einstökum aðgerðum og verkefnum síðustu vikna. Jú það er nú betra að einhver viti og hafi svörin á reiðum höndum! Kannski eru stjórnmál líðandi stundar farin að líkjast of mikið laginu um manninn sem var á vitlausum stað í vitlausu húsi og á vitlausum tíma.

 

Að sjá ný tækifæri

Það er fróðlegt að lesa um kreppuna miklu og hvernig fólk aðlagaði sig að breyttum aðstæðum. Það var jú samkeppni um að komast af. Þeir sem sjá tækifærin í niðursveiflunni eru að lokum þeir sem að munu hagnast. John D. Rockefeller sagði að á sínum 93 árum hefði hann farið í gegnum margar kreppur en hann sagði jafnframt að velmegunin kæmi alltaf aftur enda breytti fólk hugsunarhætti sínum og aðlagaði væntingar sínar að nýjum veruleika. Þetta er einmitt kjarninn í dag. Það verður erfitt fyrir marga, en fólk mun sjá nýja möguleika, fá nýjar hugmyndir og ný fyrirtæki munu komast á legg.

Það hefur án efa verið jákvæð innspýting fyrir marga að sjá að krónan styrktist vel í dag og ljóst að margir höfðu fjárhagslegan ávinning af þeirri stöðu. Jákvæðu fréttirnar af krónunni segja okkur að ekkert ástand vari að eilífu, allt er breytingum háð. Fólk má ekki gleyma sér í daglegu amstri og láta allar dómdagsspárnar í útvarpi og sjónvarpi hafa áhrif á sig. Stundum er best að slökkva og reyna að gera eitthvað uppbyggilegt. Lífið heldur áfram og velmegunin kemur aftur það kenndi reynslan Rockefeller.


Ísland ögrum skorið

Hélt til Genfar í gær og átti ágæta stund með íslensku sendiherrahjónunum sem að tóku vel á móti öllum Íslendingum í tilefni af fullveldisdeginum. 90. ára afmæli fullveldsins er staðreynd og það fengu nokkur hressileg íslensk sönglög að njóta sín til hins ítrasta í Genf í gær. Sennilega hefur norski sendiherrann sem að var með boð á sama tíma og býr í næsta hús bliknað af öfund, slík var stemmingin þegar að söngvarnir hljómuðu. Það var gaman að sjá að einhverjir Norðmenn fóru húsavillt og fóru í íslensku móttökuna en áttuðu sig fljótlega á því að þetta var gammel norsk málið sem að þeir tala ekki lengur. Ég held því reyndar alltaf til streitu við norska félaga mína að ég tali orginal norsku, svona til þess að stríða þeim aðeins. Kannski að útvarpsstöðvarnar á Íslandi ættu að spila meira af ættjarðarlögum og skrúfa meira fyrir kreppugjammið sem að maður vaknar upp við á morgnana og sofnar við á kvöldin.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband