Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Borgarahreyfingin komin á kortið

Það er ljóst eftir að talið hefur verið upp úr kjörkössunum að Borgarahreyfingin hefur komi sér á kortið og það er ekki rangt að segja að þeir séu hinir raunverulegu sigurvegarar kosninganna. Birtist þar kannski óánægjan með það aðgerðarleysi sem að átti sér stað í kjölfar hrunsins í sl. haust. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði miklu og það er líklegt að þeir rúmlega sex þúsund kjósendur sem að skiluðu auðu hafi verið margir sem að hafi kosið flokkkinn áður. Auðvitað geta hinir svokölluðu ,,vinstri flokkar" eins og þeir kalla sig sameiginlega núna glaðst yfir góðri útkomu. Það er þó rétt að benda á að það liggur enginn málefnasamningur fyrir og það verður fróðlegt að sjá framhaldið. Með vísan í þá óánægju sem að hefur átt sér stað í þjóðfélaginu og af virðingu fyrir búsáhaldafólkinu þá væri eðlilegt að þeir sem segjast hvað mest hafa hlustað á raddir fólksins tækju Borgarahreyfinguna með sér inn í nýtt ríkisstjórnarsamstarf. Sú krafa þarf ekki að vera óeðlileg miðað við það sem á undan er gengið of yfirlýsingar þeirra sem nú halda um stjórnartaumana um að hlusta beri á fólkið!

Kjósendur bíða núna eftir raunhæfum aðgerðum og þeir vilja sjá að skjaldborgin um heimilin virki ekki einungis í orðræðunni heldur í buddunni og velferðarkerfinu. Stóra spurningin núna er hvernig tilfærsla verður í hagkerfinu, verður fjármagn flutt úr menntakerfinu, heilbrigðiskerfinu, opinberri stjórnsýslu vitandi það að ríkið hefur nánast stærstan hluta vinnuaflsins starfandi undir sínum formerkjum.  Hvernig ætla menn að reka kerfið og hvar verður tilfærslan innan hagkerfisins þegar að mörg fyrirtæki eru rekin með miklu tapi og skila engum sköttum, þúsundir án atvinnu sem þiggja bætur og hvatinn til athafna og fyrirtækjareksturs er lítill sem enginn? Það er ekki öfundsvert að vera stjórnmálamaður í dag enda vandamálin ærin og ég velti því fyrir mér hvort margir af þessum ágætu þingmönnum, nýkjörnir átti sig fljótt á því að lýðræðið í þinginu er ekki svo einfalt mál, það er löng vegferð sérstaklega fyrir marga reynsulitla einstaklinga sem að nú setjast á þing.

Nú bíðjum við og sjáum hvað gerist! 

 

 


Lýðræðið í kjörklefanum

Það verður fróðlegt að sjá hvað kemur upp úr kjörkössunum í kvöld. Það virðist hafa hlakkað í mörgum enda hyllir í vinstri vegferð ef svo má segja. Það er kannski of snemmt að fagna eins og heyrst hefur á sumum stjórnmálamönnum. Það er ennþá langt í land og það veit engin fyrr en í stjórnarmyndurviðræður er komið hvað mun gerast og hver málefnasamningurinn verður. Það er lágmarkskurteisi í lýðræðisríki að stjórnmálaforingjar gefi ekki út yfirlýsingar fyrr en búið er að telja upp úr kössunum. Það ræðst síðan vætnanlega á málefnum hvaða stjórn verður mynduð, eða er það kannski bara óskhyggja? Eru menn kannski búnir að klára málin áður en kosningunum er lokið og heitir það að ganga óbundinn til kosninga?

Það er ljóst að margur er með væntingar, jafnt einstaklingar, fjölskyldur sem fyrirtæki. Það er ljóst að það er oft stutt á milli hláturs og gráturs og engin er tryggingin fyrir því að kjörklefalýðræðið skili því sem menn ætla. Við verðum að bíða og sjá en það er alltaf lýðræði í kjörbúðinni þar sem menn geta valið það sem þeir vilja og greitt fyrir. Lýðræðið í kjörklefanum er eitthvað annað!

 

 


Barnaborgin með Icelandair

Fékk skemmtilegan póst frá Vildarklúbbi Icelandair þar sem mér stóð til boða að kaupa ferð á sérstöku afsláttarverði fyrir börn en sá galli er á gjöf Njarðar að upphafið á ferðinni er bundið við Ísland. Þetta er reyndar ekki í fyrsta skiptið sem að þetta ágæta félag mismunar viðskiptavinum sínum sem að eru búsettir erlendis. Það hljóta að vera þúsundir Íslendinga sem eru búsettir erlendis með börn á sínu framfæri. Það er ljóst að þeim er mismunað með þessu tilboði og margir þeirra eru að auki félagar í Vildarklúbbi Icelandair. Það er líka rétt að geta þess að börnin fá svo frítt teppi og kodda í ofanálag, auk nælu og smá nestisbox sem að fylgir með fluginu. Það er alveg með ólíkindum hvernig komið er fyrir þessu fornfræga félagi og útsending á pósti sem þessum virkar hjákátlegur og móðgun við fjölda Íslendinga erlendis. Umboðsmaður neytenda ætti nú að kíkja á þetta mál enda miklir hagsmunir í húfi fyrir þá sem síst geta hönd fyrir höfuð sér borið.

 


Bubbi eða Jónas?

Jónas Kristjánsson www.jonas.is skýtur föstum skotum að einum af ástsælustu tónlistarmönnum landsins, Bubba Morthens www.bubbi.is fyrir að hafa verið handgenginn útrásarvíkingunum og fyrir að hafa verið lélegan kapitalista. Auðvitað er Bubbi mannlegur og á rétt á að hafa sýnar stjórnmálaskoðanir rétt eins og Jónas á fullan rétt á skoðunum sínum. Í stjórnmálunum ráðast vinsældirnar hvar mönnum er skipað á lista, stundum með litlum fjölda atkvæða og þrátt fyrir að hafa verið slappir Alþingismenn þá komast menn á þing 4 árum seinna vegna kosningakerfisins.

Í tónlistarheiminum þurfa menn að selja sjálfan sig og tónlistana til þess að komast af. Bubbi hefur sýnt að hann er yfirburðartónlistarmaður enda hafa fáir íslenskir tónlistarmenn náð að selja eins vel og hann. Í heimi dagblaðanna þá gilda sömu lögmál og í tónlistinni og menn þurfa að selja vöruna og mér dettur í hug hvort að títtnefndum Jónasi færi betur að líta í eigin barm, enda tókst honum lítið að selja DV nema þá helst í réttarsölunum. Jónas er engu að síður góður penni, hvass og skýr og það sama á við Bubba hann kann tökin á tækninni. Ég er samt ekki viss hvor þeirra félaga hlyti meiri almannahylli ef kosið væri um vöru þeirra félaga í dag!

 


Hefur legið ljóst fyrir

Jæja það er merkilegt að þetta rati í fréttir að innistæður séu fyrir hendi að stórum hluta. Auðvitað hefur það legið fyrir að innistæður í íslenskum bönkum séu til staðar, en málið er hins vegar hversu mikið fæst þegar búið er að gera upp og selja eignir. Það er eins og fréttamenn gleymi því að fall íslensku bankanna snérist um lausafjárþurrð og þá staðreynd að verðmat eigna ásamt vanskilum og pólitískri íhlutun áttu þátt sinn í því að fella íslensku bankana en ekki eins og með marga aðra erlenda banka sem að fóru fram úr sér og fjárfestu og seldu verðlausa skuldabréfavafninga til fjárfesta víða um  heim. Afleiðingarnar þekkja flestir í dag og það þarf ekki að koma á óvart að stór hluti innlána séu enn til staðar í íslensku bönkunum og það er ekki einstök uppfinning forsætisráðherra og Seðlabankans eins og mætti ætla af fréttaflutningi.


mbl.is Óvænt fé í íslenskum banka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hvers er utanríkisþjónustan?

Sótti landið góða heim um páskana og náði að kjósa utan kjörfundar í Laugardalnum. Fyrir síðustu alþingiskosningar þá þurfti ég að  heimsækja ræðismann Íslands í Genf og fá hann til þess að stimpla atkvæðaseðilinn og síðan þurfti ég að gjöra svo vel að senda atkvæðið til Íslands. Þessi athöfn var ekki í takt við breytta tíma og kostaði mig heilan dag frá vinnu og mikil fjárútlát. Ég velti því fyrir mér í aðdraganda kosninga að þúsundir Íslendinga eru núna erlendis og þurfa að kjósa, kostnaðurinn er mikill þar sem að koma þarf atkvæðinu til skila. Það er hreint með ólíkindum að ekki sé hægt að nota utanríkisþjónustuna til þess arna. Það er kominn tími til þess að hægt sé að bjóða fólki að kjósa yfir netið ef það uppfyllir ákveðin skilyrði til þess, t.d. býr erlendis o.fl. Ég ræddi þetta á sínum tíma við samgönguráðherra Kristján Möller, kannski meira í gríni en alvöru og sagði að stærsta samgöngubótin væri fólgin í því að hjálpa íslenskum þegnum að kjósa erlendis frá. Ekki verður greint frá samtali okkar hér enda aukaatriði í málinu. Eftir að hafa fengið kjörseðilinn í hendur í Genf og atkvæði mitt innsiglað og mér fengið aftur þá hafði ég samband við DHL sem að tók við atkvæðinu og sendi það áfram heim til Íslands, því miður háttaði málum svo að það endaði í Frakklandi og náði ekki til Íslands í tæka tíð. Ég get því með nokkru sagt að ég beri ekki ábyrgð á því stjórnarfari sem verið hefur við lýði, en fyrir þessa kosningar bætti ég um betur og kaus í eigin persónu á Íslandi. Utanríkisþjónustan er mikilvæg fyrir Íslendinga erlendis og það þarf að virkja hana með breyttum og betri hætti en verið hefur, sérstaklega eftir að framboð og verð á flugi hefur hækkað svo um munar og það verður að gera íslenskum þegnum kleyft að kjósa án þessa að þurfa blæða fyrir það!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband