Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2015

Blái naglinn og skilaboðin

Ég skil ekkert í því að Landlæknisembættið sé að agnúast út í Blá naglann. Það færi kannski betur á því að embættið þrýsti meira á það að fólk fengi viðeigandi skoðanir í tíma fyrir þessum vágest sem er ristilkrabbamein.

Ristilprófið er kannski ekki 100% tæki, en skilaboðin og boðskapurinn eru góð. Landslæknisembættið gæti kannski gert meira í því að fá heilbrigðiskerfið til þess að vinna markvissari að greiningu og skimun á þessu illvíga meini. Því miður hefur heilbrigðiskerfið ekki verið í stakk búið til þess að stunda reglubunda skimun hjá einstaklingum. Framganga Bláa naglans vekur fólk til umhugsunar og er það vel. Ég velti því fyrir mér hvar við værum stödd ef við hefðum ekki utanaðkomandi aðila til þess að fara í átaksverkefni sem þessi.


mbl.is Varast ber Bláa naglann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagar vs Costco

Það ber alltaf að fagna því ef útlendir aðilar hafa áhuga á því að stofna til reksturs á Íslandi. Íslendingar eru nýjungagjarnir og vilja prufa nýja hluti. Það er í þjóðarsálinni. Við megum  heldur ekki gleyma að Hagar reka þjóðþrifafyrirtæki sem heitir Bónus, fyrirtæki sem að hefur skilað fólki raunverulegri kjarabót.

Það er ljóst að Costco er ekki komið til Íslands til þess eins að gleðja neytendur heldur til þess að hámarka hag sinna eigenda sem eru útlendir og ekkert rangt við það. Hagar eru hins vegar fyrirtæki á íslenskum hlutabréfamarkaði og stórir eigendur eru lífeyrissjóðirnir sem að eru fulltrúar íslenskrar alþýðu. Auðvitað hefur verið góður hagnaður af matvöruverslun á Íslandi á síðustu árum og er það vel en fyrirtæki sem þjóna almenningi hvað mest verða að sýna samfélagslega ábyrgð í verki.

Fögnum ekki of snemma og gleymum ekki að bursta  tennurnar áður en við leggjumst á koddann í kvöld. Sjónarmið eigenda Costco og aðgerðir þeirra í þágu íslenskra neytenda hafa ekki verið í sviðsljósinu heldur frekar hvað þeir í Garðabæ ætla að gera til þess að liðka fyrir málum, skiljanlega því þar eru um gjaldstofn að ræða. Fjölbreyttara vöruúrval auk meiri og betri samkeppni er lykill að bættum hag neytenda til lengri tíma litið.

Rétt er að geta þess að undirritaður er hluthafi í almenningshlutafélaginu Högum.

 

 


mbl.is Reglur um merkingar stoppuðu Costco
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband