Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Áfram Ísland

Það var ánægjulegt að lesa um íslensku stelpurnar sem að unnu sigur í 4. deild Heimsmeistaramótsins í Íshokkí. Það er ekki sjálfgefið að íslensk landslið nái árangri á erlendri grund. Sennilega hafa stelpurnar þurft að vinna hörðum höndum og safna sér fyrir ferðinni sjálfar. Því miður búa íslenskir afreksíþróttamenn við ólíkar aðstæður og fyrirgreiðslu, allt frá því að þurfa að greiða allan útlagðan kostnað sjálfir eða sérsambandið getur borgað brúsann í sumum tilfellum. Því miður er það svo að flest smærri sérsamböndin búa við mjög þröngan kost og hafa úr litlu að spila. Það getur heldur ekki talist eðlilegt að íslenskir afreksíþróttamenn búi við svo þröngan kost að þeir eða foreldrar þeirra þurfi að borga brúsann eins og dæmi sýna. Auðvitað styrkja mörg stórfyrirtæki afreksstarfið en meira þarf til. Það er erfitt fyrir íslenska íþróttamenn að búa við landfræðilega einangrun sem að gerir allt starfið erfiðara og dýrara í framkvæmd. Ferðasjóður íþróttafélaganna var gott skref fram á við til þess að jafna út ferðakostnaðinum en það var heldur hlægilegt að lesa um 8000 kall til glímustelpunnar. Næsta markmiðið hlýtur að vera að fjölga tækifærum íslenskra ungmenna á að keppa á erlendri grund og jafna kostnað sérsambandanna í þessu tilliti fyrst að menn eru á annað borð farnir að beita jöfnuði í íþróttastarfinu.

Gleðibankinn

Það var sérstakt að horfa yfir bekkinn á ársfundi Seðlabanka Íslands. Þar voru margir menn í svörtum eða gráum fötum. Alvaran leyndi sér ekki þegar að menn tilkynntu að það voraði seinna í ár en fyrri ár. Veislunni er lokið í bili og menn þurfa svo sannarlega að laga sig að nýjum aðstæðum. Barlómurinn og neikvæð umræða er aðalsmerki fjölmiðla í dag og svo bregður manni í brún þegar að fyrirtæki eru farin að kynda undir væntingarnar og auglýsa bleyjur á gamla genginu. Þetta minnir mann á þá góðu gömlu daga þegar að menn auglýstu vörur sérstaklega í hádegisfréttum RÚV að menn gætu enn fengið vörur á gamla genginu. Slík auglýsingamennska er greinilega til þess fallin að æsa og egna fólk til þess að hlaupa og kaupa. Það er ábyrgðarmál að stórfyrirtæki skuli ganga þar fram fyrir skjöldu með auglýsingamennska sem að kyndir undir neikvæðum væntingum neytanda. Ég vona að menn sjái sér hag í því að reyna að halda sjó og að neytendur standi vaktina ötullega. Í Gleðibankanum taka menn alltaf meira út í dag en í gær!


Yfirskot og aðlögun að nýjum væntingum

Það er ljóst að sjokkið fyrir páska hefur sett fjármálakerfið úr skorðum og ljóst að mikil hræðsla hefur einkennt fjármálamarkaðina ekki bara á Íslandi heldur um heim allan. Á Íslandi er margur sem kennir Seðlabankanum um allt sem miður fer. Í BNA kenndu menn Greenspan um vandamálin, sérstaklega eftir að Seðlabankinn jók peningamagnið í umferð eftir internetbóluna og 9/11 hryðjuverkaárásirnar. Síðan 2001 hafa of margir geta fengið lán á kostakjörum í BNA og menn súpa nú seyðið af því um heim allan. Það voru ekki góð viðskipti að auðvelda öllum að taka lán og verðlagningin á fjármagninu var líka óraunhæf. Flest þekkjum við slíkar lánveitingar og fyrirgreiðslur hérlendis. Ódýr fjármögnun húsnæðislána lána í BNA hjálpaði hagkerfinu við að halda eftirspurninni gangandi í nokkur ár eftir 2001. Þvíð miður voru margir lántakendur í raun aldrei borgunarmenn þrátt fyrir kostakjörin sem buðust eða ætluðu sér aldrei að borga lánin. Slík sóun hefur nú getið af sér sterkan skjálfta á fjármálamörkuðunum. Þeir sem hafa undirrstöðurnar í lagi munu standa sterkari eftir.

Krónurallíið

Það var gaman að hlusta á Richard Portes http://www.cnbc.com/id/15840232?video=696487936 um ástandið á Íslandi. Sennilega er Prófessorinn besti bandamaður íslenskrar peningastefnu og greinilegt að orð hans voru sett fram af mikilli sannfæringu. Það er ljóst að forsvarsmenn íslenskra banka, stjórnvöld og aðrir hagsmunaaðilar á markaði verða að tjá sérstöðu íslensku bankanna og íslenska hagkerfisins mun betur en þeir hafa gert.  Umræðan um Ísland er neikvæð og íslenskt fjármálakerfi er afgreitt sem neikvætt út í hinum stóra heimi. Öll slík umræða virkar sem takmarkandi þáttur í þeirri viðleitni okkar að gera Ísland að fjármálamiðstöð og að selja íslenska hagsmuni til langframa. Tækifærin eru til staðar en við erum léleg í að tala máli okkar á réttum stöðum eins og dæmin sýndu frá Danmerkur kynningunni fyrr í vetur. Orð Portes virkuðu á mig sem að þar væri á ferð sannur sendiherra Íslands og íslenskra hagsmuna. Maðurinn hreinlega gerði þátttastjórnendunum lífið leitt en þeir ætluðu sér greinilega að tala Ísland niður en Portes sagði hingað og ekki lengra. Annars byrjaði dagurinn ekki vel hjá mér þar sem ég fékk tölvupóst frá vini í USA og öðrum í Frakklandi sem sögðu að Ísland væri að sökkva. Áhrifin af röngum fréttaflutningi er oft erfiðast að leiðrétta. Í dag er ekki málið að skrifa jákvæðar innlendar fréttir heldur að vera í stöðugu sambandi við markaðaðila á erlendri grund með það að markmiði að stjórna umræðunni.

 Það er líka sérstakt að sjá íslenska stjórnmálamenn mála skrattann á vegginn og fara miður fögrum um íslenska hagsmuni og íslensku bankana. Setningar eins og ,,þetta óttuðumst við" og ,,þetta bentum við á" hljóma eins og ómur farandsölumanna sem hefðu betur heima setið í héraði. Nú eiga fjölmiðlar og hagsmunaaðilar að nota orð Portes og matreiða t.d. gagnvart dönskum fjölmiðlum og öðrum svartssýnismönnum hvar sem þeir finnast. Ísland hefur farið í gegnum margar efnahagslægðir og sveiflur og fá ríki eru einimitt betur undir það búinn en við að aðlaga okkur að nýjum væntingum þó svo að það kunni að vera erfitt um stundir.


Macao vekur athygli

Miðvikudaginn 10. mars sl. hitti ég fyrir 5 manna sendinefnd frá Macao, en Macao er eitt af sérstökum sjálfsstjórnarsvæðum Kínverska Alþýðulýðveldisins og fyrrum Portúgölsk nýlenda. Það var mjög sérstakt að ræða við sendinefndina og þá opinberu stefnu sem í lýði er en hún gengur út á að skipuleggja sem flesta alþjóðlega íþróttaviðburði.  Það sem vakti athygli mína var að sendinefndin tjáði mér að þeir hefðu litlar 40 milljónir evra til reiðu árlega. Íþróttayfirvöldin í Macao eru líka draumur margra sem að skipuleggja íþróttakeppnir þar sem að glæsihallir og frábær íþróttamannvirki eru til staðar. Gríðarlegur vöxtur spilavíta og leijastarfssemi ýmis konar er í fyrirrúmi á þessu litla landsvæði, en fregnir segja að þeir hafi vinningin fram yfir Vegas í dag. Veit ekki hvort það er satt en kæmi það ekki á óvart. Burt séð frá spilavítunum þá eru aðstaðan og fjármagnið til staðar og ljóst að menn kappkosta að gera þau sem veglegust. Í Macao hafa menn reist marga Laugardalsvelli án þess að blikna.


Havelange datt inn

Það er alltaf gaman þegar að þekktir einstaklingar reka inn nefið á skrifstofuna og maður fær að taka í spaðann á þeim og skiptast á nokkrum orðum. Að þessu sinni var það fyrrum forseti FIFA (Alþjóða Knattspyrnusambandsins) í síðustu viku en það var svo sem ekki í fyrsta skipti enda kært með honum og forseta FIVB. Ástæða heimsóknarinnar var að skoða hina nýju og glæsilegu höfuðstöðvar FIVB í Lausanne þar sem þær standa á einum glæsilegasta reit borgarinnar með útsýnið yfir vatnið allt yfir til Evian í Frakklandi þar sem að friðarsamkomulagið um Alsír var eitt sinn undirritað. Annars var Havelange ern að sjá þrátt fyrir að vera kominn á 85. aldursárið ef ég man rétt. Síðustu helgina i febrúar varð ég síðan þeirrar gæfu aðnjótandi að hitta núverandi forseta FIFA, Sepp Blatter með fulltrúum WADA auk fulltrúa helstu Alþjóðasérsambandanna í höfuðstöðvum þess í Zurich. Bygging FIFA í Zurich er mikið mannvirki og ljóst að mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því að Havelange kom þar að málum en ef ég fer rétt með þá á hann að hafa sagt að hann hafi fundið gamalt hús og 20 dollara í sjóðum FIFA þegar hann tók við. Veit ekki hvort þetta er satt en þessir S-Amerísku herramenn eru þekktir fyrir að skreyta mál sitt. Það er gaman að vera í návist slíkra manna annað slagið og sjá hvernig þeir bera sig að eins og sannir aristókratar. Annars er mikið um heimsóknir fyrirmenna í höfuðborg heimsíþróttanna í Lausanne og Ólympíusafnið skartar Beijing skreytingum og limmarnir renna ótt og títt um stræti borgarinnar þar sem að forystumenn íþróttanna og aðrir erindrekar berast á þessi dægrin. Þeim á eftir að fjölga sendinefndunum hérna á komandi vikum.


Það bíða bjartir dagar

Biskup Íslands vakti máls á miklum sannindum er hann sagði í ræðu sinni að úti biði bjartur dagur og kannski ekki vanþörf á eftir alla þá neikvæðu umfjöllun um íslenskt efnahagslíf undanfarnar vikur og mánuði. Það hriktir ekki bara í íslenskum bönkum heldur líka í Credit Suisse svo dæmi séu tekin og ekki þarf að minnast á Bear Stearns sem var naumlega bjargað, auk Northern Rock. Annars er málið að hugsa fram á við og trúa á hina björtu og góðu daga sem framundan eru! Stundum verðum við að aðlagar væntingar að nýjum staðreyndum og nýjum veruleika. Það þarf ekki að fara langt aftur í tímann er smjör draup af hverju strái og fjölmiðlar fluttu ekkert nema jákvæðar fregnir af öllum uppganginum. Menn voru ekki að ávaxta hag sinn um aum 10%, heldur hlupu upphæðirnar á tugum prósenta og það er auðvelt að skilja af hverju venjulegt launafólk tók sér far með gullnu hraðlestinni. Við skulum vona að lestin nái á áfangastað. Á nýjum áfangastað verða menn að aðlaga sig að nýjum veruleika og nýjum staðreyndum. Það birtir öll él um síðir!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband