Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009

Mikið öskufall í Marseille

Það var skrýtið að koma til Marseille sl. nótt og það mætti manni brunafýla þegar að stigið var út úr lestinni. Þegar ég spurðist fyrir um málið þá var ég mér tjáð að það logaði bæði í skógi og í húsum allan gærdag og í nótt var slökkviliðið að berjast við eldana með flugvélum, þyrlum auk annars mannafla. Sterkur vindur hefur gert mönnum erfitt fyrir en í nótt þá barst aska víða yfir Marseille og fötin af manni lyktuðu af brunafýlu eftir smá útiveru þannig að það er ljóst að mikið hefur gengið á í borginni. Ekki veit ég þó hvort að herinn hafi komið þessu af stað en tjónið er gífurlegt og ljóst að mikið hefur brunnið enda búið að vera þurrt og hlýtt lengi.


mbl.is Miklir skógareldar við Marseille
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af Begga bónda

Begga bónda var mikið niðri fyrir í kvöldfréttum Sjónvarpsins í kvöld. Hann skaut föstum skotum á formann sinn Steingrím J. fjármálaráðherra. Beggi er í sömu sporum og margir aðrir sem að lögðu nafn sitt undir í kosningabaráttunni - voru sviknir og sviku út í nafni málstaðar VG. Beggi hefur verið harður talsmaður íslensks landbúnaðar og líklega verður bóndinn að bregða sér af bæ og sækja að sínum manni fyrir sunnan ef hann ætlar að vera samkvæmur sjálfum sér. Auðvitað þýðir ekkert að gráta í kvöldfréttum Sjónvarps menn verða hreinlega að flytja sig á milli bása. Það var nú einu sinni Kruschev sem á að hafa sagt að stjórnmálamenn væru allsstaðar eins, þeir lofuðu að byggja brýr, jafnvel þar sem að engin væri áin. Það er greinilegt að atkvæðagreiðslan hefur ekki bara varpað skugga á trúverðugleika VG jafnvel þó svo að þingmenn flokksins reyni að klóra í bakkann. Það er líka með miklum ólíkindum hvað fjölmiðlar eru linir að krefjast afdráttarlausra svara og skýringa sem kjósendur eiga rétt á.


Þjóðin á eftir að tala

"The health of a democratic society may be measured by the quality of functions performed by its private citizens" - Alexis de Tocqueville

Það er nokkuð sérstakt að lesa erlendu vefsíðurnar í dag. Þar er iðulega talað um að Alþingi hafi sett stefnuna á Evrópusambandið. Þjóðin á eftir að tala og það er langur vegur framundan.  Í dag gengu lýðræðislega kjörnir fulltrúar á bak orða sinna og í berhögg við kosningaloforð sín. Sagan mun auðvitað kveða upp sinn dóm. Kjósendur hafa bara val einu sinni á 4 ára fresti og margur kann að segja að nær væri að fela þjóðinni að ákveða niðurstöðuna í öllum meirháttar málum enda sýnir gjörningurinn í dag að lýðræðið er ekki fullkomið. Hugtakið þjóðaratkvæðagreiðsla fékk nýja og þýðingameiri merkingu í dag!


Staðfestir óvissu um eignir gamla Landsbankans

Þessi niðurstaða sýnir að það er mikil óvissa í gangi um margar af eignum Landsbankans og fyrirsjáanlegar lagaflækjur og málaferli til margra ára eru í pípunum ef fram fer sem horfir. Slíka óvissu er ekki hægt að láta þjóðina bera ábyrgð á enda veit engin ennþá hverjar ICESAVE byrðarnar verða á endanum. Fyrst og fremst hefur þessi frétt sýnt að óvissan er mikil og margt hefur ekki ekki litið dagsljósið vegna starfssemi gamla Landsbankans.


mbl.is Bankinn fær ekki eignirnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að þjóna hagsmunum kjósenda er það ekki málið?

Það hefur verið einkennilegt að fylgjast með stjórnmálaumræðunni síðustu mánuðina, hugsanleg ESB aðild og hugleiðingar um aðildarviðræður hafa sýnt fram á að það er allt hægt í stjórnmálum. Stjórnmálamenn vita sem er að kjósendur muna ekki hvað þeir stóðu fyrir deginum áður. Þetta er raunveruleiki stjórnmálanna í hnotskurn. Svissneska þjóðin þekkir hvað orðið lýðræði merkir í orði enda eru flest meiri háttar mál eru borin undir hana. Það virðist það hafa skapað innri stöðugleika og þjóðin er sátt við stjórnmálamennina sína í landi þar sem hagsæld og almenn velferð eru aðalsmerkið. Kannski er kominn tími til þess að íslenska þjóðin hafi meira að segja um helstu þjóðþrifamál líðandi stundar. Er það þingræði sem að við búum við á 21. öldinni tímaskekkja? Á íslenska þjóðin að treysta þingmönnum til þess að taka ákvarðanir í nafni lýðræðisins, sérstaklega þegar að slík ákvörðunartaka er líkleg til þess að kljúfa þjóðina í tvær fylkingar? Er það ekki eðileg lausn að þjóðin fái að segja sitt álit á málum svo engin vafi leiki á niðurstöðunni? Forsætis- og fjármálaráðherra ættu að hugleiða stöðuna og tryggja sér afgerandi umboð frá þjóðinni sem að kaus eftir ákveðnum formerkjum í vor. Ef menn virða ekki vilja kjósenda sinna þá er lýðræðinu ógnað.


mbl.is Erfitt mál fyrir VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Barátta garðyrkjumannsins og fjármálaráðherrans

Það er með ólíkindum hvað garðyrkjumaðurinn Davíð hefur haft mikil áhrif á atvinnustjórnmálamanninn Steingrím með viðtalinu í Morgunblaðinu í dag. Greinilegt að grillveislan og svefninn hafa farið úr skorðum s.l. nótt hjá fjármálaráðherra. Ég verð að viðurkenna að mér varð ekki heldur svefnsamt enda varpaði viðtalið við garðyrkjumanninn sprengju inn í mánuðinn sem einatt er kenndur við gúrkutíðina hjá íslenskum fjölmiðlum. Ekki ætla ég að blanda mér í sandkassapólitíkina sem fram fer á milli garðyrkjumannsins og fjármálaráðherrans. Munurinn á garðyrkjumanninum og fjármálaráðherranum er þó nokkur, sá fyrrnefndi hefur haldið fast við  skoðanir sínar og fylgt eigin sannfæringu í málinu. Sá síðarnefndi hefur tekið viðsnúningin af mikilli lyst og segir nú fólki allt aðra sögu en þegar hann sóttist eftir atkvæðunum í þingkosningunum í vor. Það sem íslenskur almenningur hefur áhyggjur af er ekki vinstri eða hægri pólitík heldur hvernig reikningurinn verður gerður upp og hvernig verður umhorfs á Íslandi 2016.

ICESAVE málið hefur allt verið sveipað leyndarpólitík sem þar sem að upplýsingum hefur verið haldið markvisst frá þjóðinni. Þegnar landsins eiga rétt á því að fá meiri upplýsingar og opnari umræðu um málið og jafnvel taka þátt í því að móta afstöðuna til eins stærsta gjörnings Íslandssögunnar. Þeir kraftar sem að nú brjóast út hjá þjóðinni verða stjórnmálamenn að virða að vettugi, málið snýst ekki um eitt viðtal og skammaryrði sem ganga á milli garðyrkjumannsins og fjármálaráðherrans. Það er eðlileg krafa að stjórnmálamennirnir skýri málin betur og að þau verði ekki keyrð áfram í gegnum Alþingi og verði að lögum ef menn eru ekki klárir með allar forsendur.

Eitt stærsta vandamálið á Íslandi í dag er fólgið í þeirri staðreynd að of fáir hlutast til með of mikla ábyrgð þegar að kemur að veigamiklum ákvörðunum sem að snerta framtíð heillar þjóðar. Meira samráð og meiri samvinnu hefur skort í ICESAVE málinu og þjóðin margklofin í afstöðu sinni til málsins. Sá klofningur er ekki ávísun á velferð lands og þjóðar!


mbl.is Ósvífin og ódýr afgreiðsla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar kóngurinn talar þá hlusta hinir!

Það var svo sem ekki við öðru að búast af Davíð en að hann stigi fram í sviðsljósið núna þegar að umræðan um ICESAVE stendur sem sem hæst. Það er líka sannleikskorn í því að helstu embættismenn þjóðarinnar hafa verið verið of meðvirkir og kannski ekki náð því besta út úr ICESAVE málinu, sérstaklega þegar að stór hluti vandræðanna er tilkominn vegna gallaðs regluverks EES samningsins, og íslenska þjóðin er ein og sér dæmd til þess að taka afleiðingum. Kannski er of seint í rassinn gripið núna og erfitt að taka upp þráðinn þegar að samningsdrögin liggja frammi. Já, það virðist sem að gallað regluverk hafi náð að setja eina þjóð á hausinn, þjóð sem vann sér það eitt til saka að hafa gerst aðili að EES. Hvaða réttlæti er í því að börnin og barnabörnin borgi brúsann? Er þetta leiðin að draumamarkmiðinu, hagsæld, hamingju og skjaldborgarinnar sem að stóru holskeflurnar brotna á?


mbl.is Ekki setja þjóðina á hausinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ICESAVE, ÓLAFUR OG FJÖLMIÐLAFRUMVARPIÐ

Hér að neðan fer yfirlýsing forseta Íslands vegna fjölmiðlafrumvarpsins fræga. Frumvarps sem var sagt mynda djúpa gjá á milli þings og þjóðar.  

Það er ekki óeðlilegt að velta því fyrir sér hvort að forseti Íslands muni blanda sér inn í Icesave málin miðað við yfirlýsingu hans hér að neðan og svo vegna stöðunnar sem uppi er í þjóðfélaginu útaf Icesave málinu. Miðað við mikilvægi málanna, þ.e. fjölmiðlafrumvarpið sem að snerti tiltölulega lítinn hluta þjóðarinnar þá er Icesave málið stórt að umfangi, það varðar framtíð heillar þjóðar og barnanna sem erfa munu landið.

Yfirlýsing Ólafs Ragnars er svohljóðandi:

"Í yfirlýsingu minni 2. júní 2004 var áréttað að mikilvægt sé að lagasetning um fjölmiðla styðjist við víðtæka umræðu í samfélaginu og almenn sátt sé um vinnubrögð og niðurstöður. Sjálfstæðir og öflugir, fjölbreyttir og frjálsir fjölmiðlar séu hornsteinar lýðræðisins.

Alþingi hefur nú fellt úr gildi lögin sem ollu hörðum og langvarandi deilum og mynduðu djúpa gjá milli þingvilja og þjóðarvilja.

Það er andi íslenskrar stjórnskipunar að túlka beri stjórnarskrá og lagareglur á þann veg að sem mest sátt takist í samfélaginu.

Í anda slíkrar sáttar hef ég ákveðið að staðfesta lagafrumvarpið sem fellir úr gildi fjölmiðlalögin nr. 48/2004.

Bessastöðum, 27. júlí 2004

Ólafur Ragnar Grímsson"


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband