Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Að missa sjónar á kjarnastarfsseminni

Það verður að segjast að dæmið um Soffanías Cecilsson hf. er sorglegt, og endurspeglar kannski þá hugsun sem að fylgdi því að taka erlend lán og endurfjárfesta í von um hagnað af annarri starfssemi en kjarnastarfssemi og náttúrulega var lánsfjármagnið á lágum vöxtum. Sú framtíðarsýn sem að býr að baki í svona tilfellum treystir á tvennt, í fyrst lagi að hlutabréfin sem að keypt voru hækkuðu í verði og svo hitt að gengi íslensku krónunnar yrði stöðugt eða myndi styrkjast gagnvart erlendum myntum. Þegar að dæmið var sett upp þá var ekki tekið með í reikninginn að hlutirnir gætu fari á versta veg, þ.e. að krónan myndi taka skell og að hlutabréfin myndu falla í verði, með öðrum orðum velgengnin var línuleg og ábatinn var handan við hornið. Ávinningur af slíkri hagfræði er nú flestum ljós og það er ótrúlegt að fjöldi fyrirtækja hafi ekki verið með neinar varnir í sínum stöðutökum og eins og dæmi sýna,  sérstaklega þar sem að stærstur hluti lánsins fer í fjárfestingu á einum stað er í versta falli dæmi um óraunhæft stöðumat. Menn setja hreinlega traust sitt á að framtíðin gefi betur en nútíðin. Kannski gleymdu menn því fornkveðna, ávöxtun í nútíð segir ekkert til um framtíðina!

Þegar að menn eru búnir að skuldsetja fjöreggið þannig að það mun taka áratugi að greiða niður lánin, ef það er þá hægt, ef ekki þá eru menn búnir að taka sína eigin gröf. Það er raunar ótrúlegt að sjá að fjöldi íslenskra fyrirtækja hefur á síðustu árum sótt langt út fyrir kjarnastarfssemi sína og þar með aukið rekstraráhættu sína umfram það sem eðlilegt getur talist. Það er klárt mál, ef lög þessara hlutafélaga verða skoðuð þá mun koma í ljós að þau hafi mörg hver vikið verulega frá skipulagslegum markmiðum sínum og farið langt út fyrir eðlileg starfssvið sín, og inn á svið þar sem þekking stjórnenda var fyrst og fremst takmörkuð.

Samfélagsleg ábyrgð lykilfyrirtækja í smærri byggðarlögum er mikil og það verður að gera kröfur til stjórnenda þeirra að þeir hámarki hag samfélagsins þar sem að fyrirtækið er staðsett í stað þess að spila rússneska rúllettu.


mbl.is Milljarða skuldir umfram eignir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skák og mát

Það er nokkuð sérstakt að lesa ummæli formanns viðskiptanefndar Alþingis á Vísi.is þar sem að hann segir að við séum með ónýtan gjaldmiðil og það sé verið að leiðrétta ákveðið misræmi sem að hafi verið komið upp á milli bensíns og díselolíu, og því hafi orðið að hækka bensín- og olíugjald. Síðar í sama viðtali klikkir hann út með því, að segja að það hafi verið nauðsynlegt að hækka þessi gjöld til þess að auka ekki frekar á þann vanda sem að Íslendingar standa frammi fyrir.

Hvað á maðurinn við með því að segja að það hafi verið nauðsynlegt að hækka gjöld til þess að auka ekki á vandann? Veit þingmaðurinn ekki að þúsundir fjölskyldna standa núna frammi fyrir afarkostum og allar hækkanir á bensín og olíuvörum hafa stórkostleg áhrif á útgjöld heimilanna auk þess sem að vísitala neysluverðs fer ekki varhluta af aðgerðinni enda áhrifin þekkt þar sem að höfuðstóll fasteignalána hækkar umtalsvert. Þessi aðgerð hefur einnig umtalsverð áhrif á keypt aðföng fyrirtækja sem að mörg hver neyðast til að hækka verð á vöru sinni og þjónustu. Dagar víns og rósa eru liðnir hjá núverandi ríkisstjórn og það er ljóst að gengið mun fram af hörku við að hækka skatta og aðrar álögur enda virðast menn ekki hafa önnur úrræði. Í aðstæðum sem nú ríkja þá vekur athygli að ekki hafi verið lækkaðir tollar og innflutningsgjöld á bifreiðum til þess að hjálpa bílgreininni sem er núna nánast sjálfdauð enda lítið um innflutning á bifreiðum, landbúnaðarvélum og skyldum tækjum.

Ef efnahagsaðgerðir ríkisstjórnar Íslands miðast við það að hækka álögur og gjöld, í stað þess að koma með aðgerðir sem eru til þess fallnar að hjálpa fyrirtækjum til þess að halda úti atvinnustarfssemi þá er illa komið. Ríkisstjórn þessa lands  verður að skilja að fjölskyldum og fyrirtækjum blæðir út og það þarf aðgerðir sem örva neyslu, auka atvinnuþátttöku og styrkja innviði samfélagsins. Þegar hefur dregið stórlega úr neyslu og fjárfestingum, jafnt almennings sem fyrirtækja og því verða ummæli formanns Viðskiptanefndar að teljast úr tengslum við raunveruleikann. Alþingisgarðurinn kann að vera að grænka núna og þar er sumarið komið í allri sinni dýrð en það þarf ekki að fara langt til þess að sjá sárin í grassverðinum á Austurvelli. Hvar er Hörður Torfa og fólkið sem að mótmælti í vetur? Á að bíða þar til við erum skák og mát? Að auki er rétt að benda á, að það er þingmanninum til vansa að tala niður til íslensku krónunnar og þess sem íslenskt er.

 

 


Verður ábati af þessari aðgerð?

Það eru ekki margir sem að gleðjast yfir þessari ákvörðun enda mun hún snerta pyngjuna hjá mörgum. Það er fyrirsjáanlegt að mikill fjármagnskostnaður og stórfellt tap verður hjá mörgum fyrirtækjum landsins þetta árið og það skilar náttúrulega engu í ríkissjóð auk þess sem að það er búið að slátra mörgum skattberandi gullkálfum. Það þarf náttúrulega að halda úti grunnþjónustu í samfélaginu, en stóra spurningin er hinsvegar sú hvort að það sé hentugt að auka opinberar álögur við þær aðstæður sem að nú ríkja því þær munu leiða til hækkunar á aðföngum fyrirtækja sem að hækka verð sín til neytenda. Auðvitað geta auknar álögur sem nú eru boðaðar a verðeinugis dæmdar af ábatanum sem þær færa ríkissjóði en það er einmitt vandséð, gatið sem brúa þarf er stórt og upphæðirnar sem um ræðir eru litlar í því samhengi. Kannski ber að skoða frumvarpið um auknar álögur sem hreina neyðaraðgerð og hluta af því að halda kerfinu gangandi til skamms tíma.


mbl.is Álögur á eldsneyti og áfengi hækka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kemur sykurmaðurinn fátæku þjóðunum í vanda

Það er oft stutt á milli hláturs og gráturs, það höfum við mannfólkið fengið að reyna mörgum sinnum. Það eru líka margar hliðar á málum líðandi stundar og oft þarf að kafa dýpra og lengra til þess að setja hlutina í samhengi, sérstaklega þegar ein ákörðun getur haft áhrif til hins verra. Mér er til efs að Ögmundur, sykurmaðurinn, hafi leitt hugann að því að sykurskattur kann að vega að hagsæld margra af fátækustu þjóðum heimsins, þjóðum sem að eiga allt undir því að geta ræktað sykurreyr, framleitt sykur og selt hann án hindrana.

Á síðustu árum hefur verð á algengum útflutningsafurðum þróunarríkja, sér í lagi þeirra sem að treysta á landbúnað farið lækkandi en það hefur bitnað á velferð milljóna manna. Um langan tíma hefur sykuriðnaðurinn ekki leitt af sér mikla hagsæld fyrir þróunarríkin og ríki á norðurhveli jarðar verða að taka það með í reikninginn þegar þau auka skattlagningu á mikilvægar útflutningsafurðir þróunarríkja.

Það hefur verið áætlað að verð á sykri, kaffi, kakói og baðmulli hafi á síðustu tveim áratugum fallið á milli 30-60% í dollurum mælt.  Það eitt og sér segir okkur að vandinn er mikill hjá þeim sem að treysta á framleiðslu þessara afurða og þurfa síðan að eiga  við kvótasetningu á innflutningi, tollamúra og hugsanlega skattlagningu í anda sykurmannsins. Það eru mörg þróunarríki sem að glíma við þann vanda að hafa eina til þrjár meginstoðir í sínu hagkerfi og þær þurfa á því að halda að verslun og viðskipti gangi upp við umheiminn, á meðan slíkar landbúnaðarþjóðir eru í ,,sykurgildrunni" þá glímír Ísland við ,,þorskgildruna".

Skattar geta verið réttlátir en sú forræðishyggja eins og er í umræðunni núna bitnar ekki bara á íslenskum neytendum heldur getur hún haft áhrif á velferð milljóna manna á suðurhveli jarðar. Það er alþekkt að siðaðar þjóðir á norðurhveli jarðar hafa ekki gengið götuna til góðs þegar kemur að því að setja hlutina í hnattrænt samhengi og treysta sjálfbæra þróun þeirra ríkja sem á þurfa að halda. Kannski teljum við okkur vera siðaða þjóð af því við teljum að við eigum að geta selt fiskinn okkar án hindrana en að sama skapi bakað öðrum vanda með ákvörðunum okkar og hindrað aðgengi að markaði. Hugmyndir að slíkum skattlagningum eru slæmar því þeim fylgir afleiðing og alger óvissa um það hvort markmiðunum um bætta tannheilsu náist!

Auðvitað er þessar línur hér að ofan hugleiðing en þegar öllu er á botninn hvolft er þá ekki bara betra að kenna börnunum að bursta tennurnar Ögmundur? Er það ekki staðreynd að heilbrigðiskerfið hefur gefist upp við að reyna að ná tökum á heilbrigðisvandamáli eftir skysamlegum leiðum, einfaldlega vegna þess að það þykir of dýrt? Það er einnig skrýtið að sjá fyrrum landlækni og núverandi forstöðumann heilbrigðisvísinda HÍ tala fyrir neyslusköttum (sykurskatti) í Kastljósi kvöldsins, hefði ekki verið elilegt að hann hefði talað fyrir aðgerðum og fræðslu í málaflokknum?

 


Davíð rangur maður á röngum stað?

Davíð greindi frá mörgu og margt þoldi ekki dagsljósið eins og nú er vitað. Hér að neðan er nú þessi fræga skýrsla frá því febrúar 2008, sumt af því sem þar kemur fram segir hreinlega að við höfum flotið sofandi að feigðarósi. Núverandi ráðherrar í ríkisstjórn íslands eru á meðal þeirra sem sagan mun horfa til auk helstu eftirlitsstofnanna landsins sem að virkuðu ekki þegar á þurfti að halda. Davíð var hins vegar rangur maður á röngum stað á röngum tíma og fékk að gjalda fyrir það með embættismissi, en hann sagði þó sína skoðun hispurslaust  og það er meira heldur en margir ráðherrar sem að jafnvel könnuðust ekki við varnarorð Seðlabankans í aðdraganda hrunsins. Minnisblað SB síðan 2008 má lesa hér að neðan.

Maður er samt hræddur um að þær aðgerðir sem að embætti sérstaks saksóknara hefur í frammi komi fram of seint enda eru skilaboðin núna til margra að drífa sig í að nota tætarana og hylja slóðina áður en farið verður í næstu heimsóknir í beinni útsendingu! Þegar upp er staðið mun útlagður kostnaður við allan gauraganginn skila einhverju til baka eða erum við að friðþægja land og þjóð og skrifa okkar frá einum dapurlegasta kafla Íslandssögunnar?


mbl.is Davíð vakti athygli lögreglu á Kaupþingsviðskiptum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fífluðu VG kjósendur!

Það er hægt að taka undir með Rafni að staða VG er mjög sérstök nú um stundir, sérstaklega eftir allar yfirlýsingarnar um stefnu flokksins í Evrópumálum. Kannski treysta VG á þá forsjón að kjósendur séu fífl og muni ekki á morgun hvað þeir kusu í gær. Það er engum vafa undirorpið að íslenska þjóðin stendur klofin í afstöðu sinni til Evrópusambandsaðildar og það er hæpið að ætla að stýra stór skref í þeim málaflokki meðan undiraldan er eins þung og hún er nú um stundir. Það fyrsta sem þarf að gerast núna er að snúa sér að því að vinna að uppstokkun og endurskipulagningu efnahagslífsins það mun ekki gerast í Brussel. Við töpum tíma og missum af lausnum því lengur sem við bíðum. Fyrirtækin og þjóðin þurfa aðgerðir á Íslandi en ekki í Brussel.


mbl.is Óttast klofning í VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í kápu í ræðustól á Alþingi

Að koma til dyranna eins og maður er klæddur er vel þekkt í íslensku máli það er þó rétt að taka fram að ég er enginn sérfræðingur hvað það varðar. Það hefur vakið athygli mína sú breyting sem hefur átt sér stað í störfum Alþingis þá sér í lagi reglurnar um klæðaburðinn, reyndar er ég meira fyrir það að halda í hefðir eins og bindisskylduna og messuna þar sem biskup Íslands blessar ríkisstjórn og þingheim og óskar hlutaðeigandi velfarnaðar í störfum fyrir land og þjóð. Tímarnir breytast og mennirnir með en kannski er maður af gamla skólanum þegar að maður vill halda í hefðirnar.

Það vakti athygli mína að hæstvirtur Iðnaðarráðherra mætti í ræðustól Alþingis þegar umræður um stefnuræðu forsætisráðherra fóru fram og flutti ræðu sína í ljósbrúnni kápu, þeirri sömu kápu og hún heilsaði Utanríkisráðherra Sameinuðu arabísku furstadæmanna í eins og myndir Morgunblaðsins á blaðsíðu 13 sl. þriðjudag sýna. Kápan er ekki málið heldur sú smekkleysa að flytja ræðu úr ræðustól Alþingis í yfirhöfn er nokkuð sem að ég hef aldrei séð áður. Er þetta ekki smekkleysa eða er þetta kannski hluti af því sem koma skal? Maður vandist við það sem ungur maður að greiða sér og laga sig til þegar að maður fór í sunnudagsskólann kannski var það tákn um virðingu fyrir umhverfinu og óskrifuðum siðareglum þess tíma. Þingmenn sem að koma oft fram opinberlega ættu að huga að fatavali sínu og útliti, kannski hefði tíma þeirra þingmanna sem að tóku ekki þátt í kirkjuathöfninni fyrir þingsetningu verið betur varið hjá stílista, enda sýnist mér ekki veita af!

 


Margir tapa miklu þessa dagana

Það er ljóst að ríkisbankarnir hafa gengið hart fram í því að keyra niður innlánsvexti og það langt umfram lækkun stýrivaxta. Ef markaðurinn virkar þá ættu sparifjáreigendur að flytja sitt fjármagn yfir til Sparisjóðakerfisins og MP banka sem núna standa fyrir utan ríkisbankakerfið sem er með mun lakari innlánakjör. Margur er því að tapa verulegum fjárhæðum þessa dagana, þ.e. ef þeir eiga fjármagn í ávöxtun hjá ríkisbönkunum, enda munar allt að 4% á innlánsvöxtunum, nokkuð sem fáir hafa efni á að láta framhjá sér fara. Ef hagfræðin um hinn hagsýna neytanda virkar þá ættu menn að flykkjast yfir til bankanna sem að bjóða betri kjör, fáir hafa efni á því að vera fórnarlömb og styrktaraðilar umfram það sem eðlilegt getur talist.


Gæði og fagmennska í fjölmiðlun

Það er ekki í fyrsta skipti sem að 365 miðlar og það sem því tengist fara með fleipur og það hlýtur að vera erfitt fyrir fjölmiðlamenn að starfa í slíku umhverfi, nema þá að þeim sé alveg sama. Raunar finnst mér það merkilegt að menn komast of oft upp með að skrifa og láta fara frá sér fréttir án þess að athuga staðreyndir. Slíkt skaðar ekki bara fjölmiðilinn sjálfan heldur oft á tíðum saklaust fólk sem má ekki vamm sitt vita og þá er ég ekki sérstaklega að vísa til fréttarinnar sem um er rætt heldur margar aðrar sem hafa fengið að fljóta á vissum miðlum. Gæði fjölmiðla birtast hvað fyrst og fremst í því fólki sem þar starfar og það er orðið of mikið um rangfærslur og skorti á fagmennsku í fjölmiðlum þessa dagana. Góð fjölmiðlmun birtist hvað fyrst og síðast í hlutlægni og því að skilja kjarnann frá hisminu, það er oft erfiðleikum bundið eins og staðreyndir sýna. Það væri gaman að siðanefnd Blaðamannafélagsins tæki saman tölfræði um rangfærslur fréttum og birti í lok árs ég er klár að það væri áhugaverð lesning.


mbl.is Athugasemdir við fréttaflutning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðin komin á þing

Jæja þá er þjóðin komin á þing ef svo má til orða taka en Borgarahreyfingin náði góðum árangri í nýafstöðnum alþingkosningum. Á engan er hallað þótt sagt sé með réttu að hreyfingin hafi brotist fram í kreppu, og eins og önnur afkvæmi kreppunnar þá eru slík börn oft á tíðum harðger og líkleg til þess að fara óhefðbundnar leiðir eins og sást best í upphafi þings þegar að hreyfingin samdi sig til áhrifa. Það er reyndar þekkt að borgarahreyfingar hafa lengi náð þokkalegum árangi víða um lönd og það má ekki gera lítið úr því að menn reyni að komast til áhrifa, það er eðlilegt.

Það má kannski segja í gríni að Borgarahreyfingin hafi lagt sjálfa sig niður í dag því að þegar rýnt er í málefnaskrá flokksins: http://www.borgarahreyfingin.is/stefnan/ þá eru þar mörg göfug markmið og í endan segir:

Borgarahreyfingin leggur sig niður og hættir störfum þegar þessum markmiðum hefur verið náð eða augljóst er að þeim verður ekki náð.

Ég held að Borgarahreyfingin verði að taka sig alvarlega og fjarlægja komment sem þetta út af heimasíðu sinni enda verða pólitískt kjörnir fulltrúar að reyna að hafa áhrif til hins betra en ekki hætta strax á fyrsta borði eins og skilja má ummælum hérna að ofan. Lýðræðið á götunni er oft annað og meira heldur en það sem fer fram í þingsölum og því eiga menn eftir að kynnast á komandi þingi.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband