Farsæld til framtíðar á Seltjarnarnesi

Farsæld 

Íbúar á Seltjarnarnesi hafa notið þess að hafa haft framsýna og sterka leiðtoga við stýrið og nægir þar að nefna einn farsælasta sveitarstjórnamann á Íslandi, Sigurgeir Sigurðsson, fyrrum bæjarstjóra og samherja hans. Auðvitað var það ekki alltaf dans á rósum að stýra litlu og metnaðarfullu bæjarfélagi. Stundum er hollt að líta til baka og skoða það sem áunnist hefur á síðustu árum og áratugum. Þetta gerðist ekki allt í gær! Það hefur tekið áratugi að byggja upp innviði samfélagsins á Seltjarnarnesi og það vita flestir sem að hafa fylgst með vexti bæjarins. Lykilatriðið er að menn hafa ekki ráðist í meira heldur en þeir hafa getað staðið undir. Á síðustu árum má kannski segja að margar krítískar ákvarðanir hafi verið teknar en þær voru samt ekki teknar að láni eins og víða og það er kjarni málsins.

Síðan 1962 hafa íbúar Seltjarnarness veitt Sjálfstæðisflokknum á Seltjarnarnesi skýrt umboð til þess að starfa í þágu íbúanna, og mér segir svo hugur að margir hafi ekki eingöngu kosið eftir flokkspólitískri línu heldur fylgt skynseminni og valið þá sem þeir hafa treyst hvað best til þess að hámarka hag bæjarbúa. Það þarf ekki annað en að horfa á alla framkvæmdirnar við skólana, leikskólana, íþróttamannvirkin og sundlaugina til þess að skilja að það hefur verið reynt að þjónusta íbúana. Það er af mörgu öðru að taka en ég læt vera að rekja það hér.

Umhverfis- og skipulagsmál

Eitt brýnasta hagsmunamál íbúanna á Seltjarnarnesi eru umhverfis- og skipulagsmál enda eru landgæðin takmarkandi þáttur. Hvað sem allri uppbyggingu líður þá mega menn ekki gleyma því að þegar að pólitíkinni sleppir þá er eitt mikilvægasta hagsmunamál íbúanna fólgið í verndun lífríkisins og bættu skipulagi á Seltjarnarnesi. Lífsgæðin eru ekki eingöngu mæld í því sem eytt er í rekstur kerfisins heldur í þeim miklu náttúrugæðum sem til staðar eru á Seltjarnarnesi og ljóst að það þarf að halda vel á málum í framtíðinni. Það þarf líka að koma lífi inn á Hrólfsskálamelinn að nýju og vinna sig út úr vandamálunum þar enda virkar það skrítið að engir séu íbúarnir þar.

Af fjárhag

Mikið hefur verið rætt um fjárhagsstöðu Seltjarnarnesbæjar undir það síðasta og þá með neikvæðum formerkjum og þar hafa framsóknarmenn á Seltjarnarnesi verið fremstir í flokki að gagnrýna. Ég get reyndar tekið undir það að ákveðin hættumerki eru í rekstrinum hjá Seltjarnarnesbæ þar sem 85% af skatttekjum fara í beinan rekstur, laun og launatengd gjöld. Þetta er auðvitað áhyggjuefni og það er ljóst að það verður að hagræða verulega og finna nauðsynlegt jafnvægi fyrir bæjarsjóð.

Það segir sig sjálft að það er ekki hægt að halda áfram á sömu braut, tekjustofnarnir leyfa það ekki og það eru engar forsendur í spilunum aðrar en að hagræða í rekstrinum. Þetta á ekki bara við um Seltjarnarnes heldur gildir þetta um flest bæjarfélög í landinu miðað við núverandi efnahagsforsendur.

Framsóknarflokkurinn á Seltjarnarnesi hefur gagnrýnt fjárhagsstjórnina á Seltjarnarnesi en þeir hafa ekki bent á neinar leiðir til þess að skera niður í rekstrinum. Það sama á við um Samfylkinguna á Seltjarnarnesi. Af hverju geta menn ekki talað hreint út og sagt að það þurfi t.d. flatan niðurskurð í rekstrinum í stað þess að segja við kjósendur að álögur verði ekki hækkaðar. Hvað þýða slíkar yfirlýsingar frá framboðum sem að koma fram á síðustu metrunum? Hafa menn ekkert lært?  Það verður ekki bæði sleppt og haldið!

Um hvað snýst málið

Spurningin er: Hverjum treystum við til þeirra verka sem framundan eru?  Ég er í engum vafa með það að Sjálfstæðismenn munu taka til hendinni og hagræða í rekstrinum. Það þarf að gerast af ábyrgð og með skilningi á rekstri bæjarins. Lykilkrafan í dag er ráðdeild og aðhald!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Grunaði ekki Gvend" !

 Aldeilis frábær pistill - hjá frábærum strák !

 Vissi að þú ert vel pennafær, og þessi hugvekja staðfestir þá skoðun rækilega.

 Legg nú til, að þú hugleiðir - þegar heim verður snúið frá útlandinu,  að hefjast handa og vinna ötullega að setu í bæjarstjórn okkar góða sveitarfélags.

 Mun styðja dyggilega við bakið á þér , og hygg að minn stuðningur ætti að smita rækilega margan gamlingjann !

 Heill þér og þinni indælu fjölskyldu.

 Einlæglega,

 Magnús Erlendsson.

Magnús Erlendsson (IP-tala skráð) 29.5.2010 kl. 20:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband