Færsluflokkur: Bloggar

Ísland ögrum skorið

Hélt til Genfar í gær og átti ágæta stund með íslensku sendiherrahjónunum sem að tóku vel á móti öllum Íslendingum í tilefni af fullveldisdeginum. 90. ára afmæli fullveldsins er staðreynd og það fengu nokkur hressileg íslensk sönglög að njóta sín til hins ítrasta í Genf í gær. Sennilega hefur norski sendiherrann sem að var með boð á sama tíma og býr í næsta hús bliknað af öfund, slík var stemmingin þegar að söngvarnir hljómuðu. Það var gaman að sjá að einhverjir Norðmenn fóru húsavillt og fóru í íslensku móttökuna en áttuðu sig fljótlega á því að þetta var gammel norsk málið sem að þeir tala ekki lengur. Ég held því reyndar alltaf til streitu við norska félaga mína að ég tali orginal norsku, svona til þess að stríða þeim aðeins. Kannski að útvarpsstöðvarnar á Íslandi ættu að spila meira af ættjarðarlögum og skrúfa meira fyrir kreppugjammið sem að maður vaknar upp við á morgnana og sofnar við á kvöldin.


Morgunblaðið er blað allra landsmanna

Það er leitt að heyra um stöðuna hjá Morgunblaðinu, þangað sem fjöldi Íslendinga hefur sótt alþýðufróðleik sinn. Það má ekki gerast að Morgunblaðið leggist af eða útgáfa þess breytist. Það er enginn vafi í mínum huga, að Morgunblaðið er sennilega besti fjölmiðill Íslands frá því í árdaga. Efnistök og fréttaflutningur hefur alla tíð verið mjög ábyrgur, fumlaus og laus við alla tilgerð eða staðreyndavillur. Sennilega hefur þar ráðið mestu hæft starfsfólk. Ég vona að þjóðin fá að njóta Morgunblaðsins um ókomin ár, annað væri slys fyrir íslenska fjölmiðlun og fréttamennsku. Morgunblaðið á erindi til allra!


Ég heiti Jón

og er Sigurðsson. Ég var klæddur í bleikan skrúða í dag. Þetta var ekki með mínu samþykki. Ég mótmæli!

Ég er ráðherra en enginn sagði mér neitt

Það hefur reyndar verið skoðun mín að ábyrgð Viðskiptaráðherra, yfirmanns bankamála sé töluverð og ekki má gleyma Fjármálaeftirlitinu. Ég verð að segja að yfirlýsing ráðherra er sérstök þar sem að hann segist ekki hafa vitað af stöðunni. Það er einmitt eitt af grundavallaratriðið að ráðherra viti, það er í hans verkahring og sérfræðinganna í ráðuneytinu að vita af tilvist vandamálanna, greina þau og koma með tillögur til úrbóta. Það er ódýrt að segja ég vissi ekki af hlutunum. Það er ljóst að yfirlýsing ráðherra hefur nú bakað honum meira tjón en ella enda hefur forstjóri Fjármálaeftirlitsins sem að ber líka ábyrgð kastað boltanum aftur yfir til ráðherrans. Þetta fer að verða eins og hanaslagur enda reynir hver að bjarga eigin skinni.


mbl.is FME: Upplýsti ekki ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðin er reið og krefst svara

Þjóðin er reið! Hún er reið vegna þess að stjórnmálamenn hafa ekki stýrt skútunni á farsælan hátt. Þjóðin er reið vegna þess að þeir sem fara með ábyrgð virðast ekki bera neina ábyrgð og geta komist upp með það í krafti þess að vera lýðræðislega kjörnir til forystu fyrir fólkið í landinu. Fólkið í landinu þetta sama fólk sem að kaus þessa stjórnmálamenn til valda lagði ævisparnaðinn i trausta íslenska banka og fyrirtæki sem að fóru fyrir lítið m.a. vegna þess að eftirlitskerfið brást. Þjóðin er reið vegna þess að ráðherra Viðskipta og bankamála ber þar stóra ábyrgð en hefur fengið silkimjúka meðferð hjá fjölmiðlum þessa lands! Er ekki komin tími til þess að einhver stjórnmálamaður t.d. ráðherra Viðskipta- og bankamála segi af sér vegna þess að kerfið sem hann er samnefnari fyrir brást og stærsta skipbrot Íslandssögunnar er staðreynd. Mörgum kann að þykja þetta stór orð en staðreyndin er einfaldlega sú að í lýðræðisríkjum i Evrópu þá væru menn búnir að slíku.


mbl.is Viðskiptaráðherra í Monitor
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við erum ekki hryðjuverkamenn

Það er gott að fólk hefur tekið sig saman og ákveðið að tala máli Íslands í útlöndum. Það þarf ekki að gera einfalda hluti flókna. Styðjum málstaðinn: www.indefence.is

 


Af Trampe greifa og Gordon Brown

Sú aðgerð breska ríkisins að fara gegn íslenskum hagsmunum með hryðuverkalögfjöf til þess að leggja hald á eignir íslenskra banka er einstök.  Fyrr á tímum hefði slík aðgerð verið ígildi stríðsyfirlýsingar. Hvað sem öllu líður þá hefur aðgerð breskra stjórnvalda skaðað hagsmuni Íslands og íslenskra þegna. Það er ljóst að fullvalda ríki eins og hið íslenska getur ekki látið hjá líða að sækja rétt sinn og virðingu með því að fara lagaleiðina. Ísland hefur oft mátt þola ofríki grannríkja sinna og það þarf ekki fara langt aftur til þess að sjá að fáar þjóðir hafa stundað meira ofríki á hendur öðrum fullvalda ríkjum en hið breska.

Bandamenn okkar í vestri og vinaþjóðir í norðri hafa að mörgu leyti brugðist okkur á ögurstund eins og fjölmiðlar hafa tjáð okkur. Það er ljóst að sá skellur sem Ísland hefur orðið fyrir er sennilega einn af þeim stærstu sem að fullvalda ríki hefur orðið fyrir í Evrópu á seinni tímum. Frásagnir stærstu fjölmiðla heimsins taka af allan vafa.

Það er eins og við séum stödd inn í stóru landslagsmálverki þar sem að nýtt penslastrik breytir fyrri veruleika eins og ekkert sé.

Atburðir síðustu daga og vikna hafa fært okkur sönnur á að Ísland þarf að læra að standa á eigin fótum sem efnahagslega sjálfbært land. Spurningin er hvort að við höfum farið af taugum og sett okkur í aðstæður sem verða okkur margfalt dýrari en það að halda Glitni gangandi? Tíminn einn mun leiða í ljós hvað var rétt og hvað var rangt en nú skiptir máli að íslensk þjóð bogni ekki fyrir Brown og hans kumpánum. Við höfum kjark, þrek og þor til þess að standast yfirgang misviturra manna.

Kappar eins og Guðmundur Kærnested og Helga Hallvarðssyni voru í fylkingarbrjósti þegar íslenska landhelgin var varin, en þá sýndu menn  æðruleysi og kjark á ögurstund þótt stundum hafi verið við ofurafl að etja. Ég man ennþá peysuna sem að ég fékk með áprentaðri mynd af Guðmundi heitnum og ég klæddist henni oft enda stoltur af mínum manni sem að lét ekki vaða yfir íslenska hagsmuni. Þegar ég fór loksins í starfskynningu í grunnskóla þá valdi ég að dvelja hjá Landhelgisgæsluni og var stoltur af því af fá að fylgjast með þessum hetjum sem voru oft á síðum dagblaðanna.

Menn hafa áður steytt á skeri í samskiptum sínum við Ísland og vonandi fer eins fyrir Gordon Brown  eins og Trampe greifa hér forðum, þjóðin mun að endingu bera slíka menn ofurliði. Íslenska þjóðin er reið og sár vegna framkomu breska ríkisins og hún ekki sætta sig við neitt annað en að stjórnvöld fylgi þessu máli eftir af fullum þunga. Þjóðarstoltið leyfir ekki annað!


Ímyndarskaðinn varanlegur í útlöndum

Það er nokkuð sérstakt að tala heimsálfa á milli þessa dagana og greinilegt að menn vita af ástandinu á Íslandi. Síðasta samtal mitt í dag var við starfsmann okkar í Grikklandi sem að tjáði mér að það hefði verið viðtal við 3 Grikki í grísku sjónvarpi um það hvernig þeim reiddi af á Íslandi. Þessi félagi minn hélt að Ísland væri orðið gjaldþrota og umræðan er öll í þá áttina. Hún Antonella á skiptiborðinu sagði í dag við mig ,,I know of the problems in Iceland but you are receiving so many calls because of this!".  Það biðu vinir og kunningjar eftir því að fá að tala við mig til þess að fá að vita af ástandinu á Íslandi enda hafa erlendir miðlar verið uppfyllir að fréttum um fall bankanna.

Það er alveg klárt í mínum huga að ímyndarskaðinn í útlöndum er mikill og varanlegur. Það skiptir miklu máli að byrjað sé að matreiða jákvæðar fréttir af íslenskum efnahag, menntunarstigi þjóðarinnar, endurnýjanlegri orku og markvissri nýtingu á auðlindum okkar til þess að vinna bug á neikvæðu fyrirsögnunum sem að tröllríða öllu um Ísland þessa dagana.

Íslensk stjórnvöld verða að vinna markvisst að þessum málum. Við þurfum ekki nefnd til þess að vinna að málunum við þurfum fagfólk í okkar þjónustu strax þar sem að miklir viðskiptahagsmunir eru í húfi á mörgum vígstöðvum. Það er of seint að bregðast við í framtíðinni það þarf aðgerðir strax frá fyrsta degi og því miður hef ég það á tilfinningunni að við séum að fara halloka og við skynjum ekki aðstæðurnar frekar en aðdragandann að falli fjármálakerfisins.


Bones for Us

Verum þess minnug að hér er um tímabundna erfiðleika að ræða sem við Íslendingar munum vinna okkur í gegnum. Miklu máli skiptir að við tökumst á við þessa erfiðleika þannig að við byggjum á styrkleikum okkar og leggum áherslu á baráttugleði, bjartsýni, og samkennd.Svo mörg er þau orð sem birtust landsmönnum í auglýsingu í dag frá Menntamálaráðuneytinu, Félags- og Tryggingamálaráðuneytinu og Heilbrigðisráðuneytinu.Það er hægt að taka undir þennan boðskap. Maður veltir því hins vegar fyrir sér hvað verði eftir þegar búið er að gera upp bankana og kaldur veruleikinn leiðir í ljós að lítið er til skiptana. Kannski verður bara bones for us!

Hver getur læknað kramið hjarta

Félagi minn í útlöndum sendi mér línu um daginn. ,,Nú sitjum við báðir saman í útlöndum með sært stolt og kalið hjarta." Það er erfitt að vera í burtu og geta bara fylgst með því sem gerist í fjölmiðlum. 9 ára sonur minn kom askvaðandi inn eftir leik með félögum sínum í gær og var mikið niðri fyrir: ,,Pabbi!  Hann Francesco segir að Rússarnir ætla að lána Íslandi fullt af milljónum! Er það satt?" Francesco svissneskur bekkjarfélagi hafði fengið upplýsingarnar úr svissnesku fjölmiðlunum og auðvitað fræddi hann vin sinn um þessa nýju stöðu. Mikill er máttur fjölmiðlanna! Það er ljóst að orðspor landsins fer víða og líka á meðal þeirra yngstu. Auðvitað þurfum við að uppfræða börnin um hið breytta landslag, sérstaklega þegar þau eru fjarri heimalandinu ein á báti í öðru umhverfi en vanalega. Það er skrýtið að vera Íslendingur í útlöndum núna og það er eins og maður reyni að gera ósjálfrátt lítið úr uppruna sínum á meðan stormurinn gengur yfir.

Það verður fróðlegt að heyra nýja hlið á efnahagsmálunum í þætti Björns Inga Hrafnssonar sem er upprisinn eftir jakkafatamálið: http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item187276/ Það sýnir svo ekki verður um villst að lífið heldur áfram með nýjum tækifærum og nýjum aðstæðum! Gangi þér allt í haginn Björn!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband