Vandi víðar en á Íslandi

UBS bankinn í Sviss glímir nú við vandamál sem er angi af lánsfjárkreppunni en bankinn hefur þegar afskrifað 42 billjónir dollara og sagt upp 2000 starfsmönnum, en fleiri uppsagnir eru í pípunum. Vandamál UBS tengjast fyrst of fremst undirmálslánunum svokölluðu en þar hafði bankinn lagt til vænan skerf. Í Sviss er hagkerfið stöðugt í meira lagi og svissneski frankinn ímynd stöðugleikans sjálfs eins og alþekkt er og hér í þessu eyríki Evrópu.

Afleiðing af varahugaverðri lánastefnu UBS hefur leitt til þess að gengi hlutabréfa UBS hefur fallið um 60% það sem af er árinu og sagan segir að margir viðskiptavinir hafi flutt fé af reikningum sínum til annarra banka.

Svissneskir fjármálaskýrendur segja líka að núverandi staða hafi kennt mönnum að það bankar eins og UBS og Credit Suisse þurfi að hafa lágmark 50% lausafjárhlutfall. Að auki hefur núverandi staða sýnt að áhættustjórnun þurfi að bæta til muna og það er einmitt stóra málið með þessum pistli. Í apríl 2002 fékk yfirstjórn UBS skýrslu í hendur sem taldi að áhættan væri töluverð af undirmálslánunum. Sú skýrsla var aldrei rætt að neinu marki og margir segja að hún hafi verið lögð til hliðar og bankinn hafi haldið áfram að lána eins og ekkert væri. Í þessu samhengi er rétt að benda á að íslenska Fjármálaeftirlitið hefur sagt undirstöður bankanna á Íslandi traustar en annað hefur nú komið á daginn og rétt að spyrja hvort að áhættugreiningin og stöðumat hafi í raun verið ábótavant. Það er létt að vera vitur eftir á en það er ljóst að menn hafa ekki trúað því að hlutirnir gætu farið eins og þeir hafa gert. Sú lexía er dýrmæt til framtíðar.

Stóra málið í svissnesku fjármálalífi núna er að menn telja töluverða hættu á að lífeyrissparnaður muni skerðast verulega með fallandi verði á eignamörkuðum. Umræðan er á þá lund að það þurfi mjög lítið í viðbót til þess að stjórnvöld grípi inn í til þess að vernda lífeyrissparnað landsmanna og það segir allt sem segja þarf. Ef svissneska lífeyrissjóðskerfið, eitt traustasta kerfi í heimi hrynur þá er ekkert til sem heitir stöðugleiki lengur.

Vandamál markaðarins akkúrat núna eru fólgin í því að það ríkir almenn vantrú og tortryggni á milli banka- og fjármálastofnana. Í fjallríkinu Sviss fer því fjarri að fjölmiðlar séu uppfullir af fréttum um bankakreppuna og menn tjá sig almennt ekki opinberlega um bankamálin og hagstjórnina í þeim ríka mæli eins og gerist á Íslandi.

Svissneskir fjármálagreinendur segja að núverandi staða komi til einu sinni á öld og þeir segja að fjárfestar muni ekki taka við sér fyrr en þeir telja hið versta yfirstaðið, svo sem ekki mikil speki fólgin í þeim ummælum. Líklegt verður að telja að botninum sé við það að verða náð en það mun taka tíma að greiða úr fjármálaflækjum, skuldavafningum og eignasöfnum sem hafa fallið gríðarlega í verði eftir alla taugaveiklunina. Afleiðingin af trúverðugleikaskorti á fjármálamörkuðunum mun leiða til þess að fjöldi manna mun vissa atvinnuna, fyrirtæki munu leggja upp laupana og skattborgarar munu borga brúsann.

Þegar rýnt er í íslenska fjölmiðla og umræðuna almennt þá er ljóst að taugar landsmanna eru þandar til hins ítrasta. Vonandi bera menn skynbragð á að skilja kjarnann frá hisminu og þá sér í lagi með umræðuna um ESB sem einhverja töfralausn á núverandi ástandi. Það má ekki ógna stöðugleikanum með upphlaupum og mishugsuðum aðgerðum sem kunna að gera vont ástand enn verra, sérstaklega eftir að ímyndin hefur beðið hnekki og margur með sálartetrið í sárum. Þar sannast hið fornkveðna, aðgát skal höfð í nærværu sálar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband