Andi liðinnar ríkisstjórnar og vinstri fótar hagfræði

Við höfum gengið í gegnum tíma sem að einkenndust af mikilli uppsveiflu, tímum þar sem að heil ríkisstjórn þurfti að taka pokann sinn fyrir að hafa sofið á vaktinni og fyrir að hafa ekki beitt nægjanlegu aðhaldi  og eftirliti með fjármálamarkaðinum. Andi liðinnar ríkisstjórnar hefur markað djúp sár í sálartetri þúsunda Íslendinga, venjulegra fjölskyldna sem að unnu sér ekkert til saka nema þá helst fyrir að hafa tekið lán á vildarkjörum í útlöndum í gegnum bankann sinn.

Upp hefur risið ný ríkisstjórn með holdgerfinga hins gamla tíma í forsæti með þekkt meðöl í farteskinu. Maðurinn í græna góða Volvóinum er sestur undir stýri og keyrir lipurlega frú Jóhönnu um götur þessa lands. Sú vegferð verður án efa þyrnum stráð og ljóst að græna þruman mun stoppa víða, jafnt hjá þeim sem minna mega sín sem og meðaljóninu sem er innilokað í fjármálagildrunni, ævisparnaðurinn farinn og ævikvöldið sjálft í hættu. Börnin munu að endingu borga brúsann, þeirra framtíð og þeirra vegferð er skuldsett. Græni Volvóinn mun líka stoppa hjá mér og taka sitt, og líka af þeim sem voru skynsamir og tóku ekki þátt í neyslukapphlaupinu eða fóru offari í fjárfestingum.

Gríðarleg skattheimta á fyrirtæki og einstaklinga mun ríða mörgum að fullu og þær auknu álögur munu ekki vera það morfín sem að linar kvalirnar. Lítið hefur verið gert til þess að veita fyrirtækjum landsins meiri viðspyrnu í því árferði sem núna ríkir. T.d. er erfitt að skylja afhverju tollar og gjöld á bifreiðum eru enn í sannkölluðum ofurflokki á meðan bílgreininni blæðir út þar sem að fáir hafa efni á að endurnýja tæki og tól miðað við skráð gengi núna. Væri t.d. ekki hægt að lækka tolla til þess að blása lífi í greinina og fá hjólin til þess að snúast og svo þessi fyrirtæki geti skilað hinu opinbera sköttum og gjöldum af einhverju?

Dæmi um slæman (nef)skatt er útvarpsgjaldið svokallaða, dæmi um skatt sem að flokkur einkaframtaksins og demókratarnir komu á til þess að halda úti ríkisrekstri sem er í fullri samkeppni við einkaframtakið. Er þessi skattur réttlátur og mun hann ekki koma helst niður á venjulegum fjölskyldum sem að hafa nóg með sitt og þurfa á hverri krónu að halda? Það verður lítið bros hjá fólki þegar það fær álagningarseðlana í ágúst.

Hækkun tryggingargjalds mun leggjast af fullum þunga á fyrirtækin og sveitarfélögin, en hækkunin mun skila milljörðum í ríkiskassann en spurningin er hver verða áhrifin? Fyrirtæki og stofnanir munu segja upp fólki og draga úr þjónustu til þess að mæta hækkuninni. Er þetta aðgerð sem er til þess fallin að hleypa lífi í ráðningar fyrirtækja eða hjálpa skuldsettum sveitarfélögum með að halda úti grunnþjónustunni.

Til skamms tíma mun neysluvísitalan ekki fara varhluta af þessum aðgerðum þar sem skuldir íslenskra heimila, afborgunarbyrði lána og aðföng fyrirtækja munu hækka. Ruðningsáhrifin eru þekkt enda neyðast flestir til þess að laga sig að nýjum kostnaðarforsendum sem mun þrýsta verðlagi upp og verðbólguskot mun fylgja í kjölfarið.

Hækkun á staðgreiðslusköttum og hátekjuskattur mun skila einhverju til skamms tíma en spurning er hvort að áhrifin leiði til þess að svört atvinnustarfssemi aukist til muna? Með háu skatthlutfalli þá er líklegt að áhrifin verði letjandi á vinnuframlag einstaklinga og því mun þjóðarframleiðslan dragast saman. Dr. Art Laffer skýrði grundvallarhegðun einstaklinga á markaði og vilja þeirra til þess að taka þátt í framleiðsluaukningu og starfssemi á markaðnum ef skattar eru sanngjarnir. Það eru engin ný vísindi að hóflegir skattar skapa ríki meiri tekjur en ella og það er ljóst að ríkið mun ekki endilega fá fleiri krónur í kassann með hærri tekjuskattsprósentu, sérstaklega í núverandi árferði. Stóra spurningin er hvort skatttekjur minnki og hvort áhrifin verði önnur en lagt var upp með og það er því eðlilegt að setja spurningarmerki við framkvæmdina?

Laffer áhrifin skýrð

Laffer og áhrifin í skattkerfinu á Írlandi og Rússlandi
Hugmyndir stjórnmálanna og raunveruleikinn

Hækkun á áfengisgjöldum mun án efa skila miklu í kassann og það verður fróðlegt að sjá hvort að almenningur þessa lands muni sætta sig við slík ofurgjöld á áfengi og tóbaki. Hér krystallast eitt grundvallaratriðið í rekstri fyrirtækja á markaði en það er sú staðreynd að neytendur hafa ákveðið þol þegar kemur að verðhækkunum enda fælir það viðskiptavina oftast nær í burtu. Stjórnendur fyrirtækja á markaði þekkja líka nálægðina við neytendur á meðan stjórnmálamennirnir byggja sína aðferðarfræði á væntingum. Það verður fróðlegt að sjá hvort að ríkið mun uppskera minni tekjur og hvort neytendur muni breyta neyslumynstri sínu. Munu menn fara að brugga, smygla eða neyta minna áfengis? Þetta virðast embættis- og stjórnmálamenn oft ekki skilja. Vinstri fótar hagfræðin er oft góð í orði en sársaukafull í framkvæmd og það munu fjölskyldur þessa lands fá að kynnast á komandi mánuðum.

Sú vinstri fótar hagfræði sem að byggir á aukinni skattheimtu ríkisins í árferði þar sem að flestar fjölskyldur og fyrirtæki landsins eru í öndunarvélunum er ekki sú aðferðarfræði sem er ekki líkleg til þess að blása lífi í efnahag landsins.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband