Að skerpa ímyndina

Það var gaman að koma til Vínar á sl. sunnudag. Jólaandinn svífur yfir myndarlega skreytta borgina og nóg að gera hjá kaupmönnunum að  því er virtist. Auðvitað var maður spurður spjörunum úr um ástandið á Íslandi og greinilegt að menn eru misvel með á nótunum, en rétt er að geta þess að það hefur ítrekað komið upp á þeim fundum sem að ég hef sótt  að fólk hefur rangar hugmyndir um ástandið. Það tekur þó steininn úr þegar að fólk heldur að það sé ekkert að bíta og brenna á Íslandi. Þetta er því miður staðreyndin sem að maður finnur fyrir í alþjóðasamstarfinu og fólk telur jafnvel að íslenska ríkið sé gjaldþrota. Mér segir svo hugur að heimsóknum erlendra ferðamanna til Íslands muni fækka enda hefur neikvæð fréttaumfjöllun skaðað íslenska hagsmuni og þá sér í lagi ferðaþjónustuna og þá sem að starfa í þeirri grein, en líklegt er að aðilar í tengdri þjónustu verði líka fyrir skakkaföllum. Það er í raun engin vitglóra í því að telja að Ísland sé ódýrt fyrir útlendinga þegar að gengisáhrifin eru komin inn í alla verðmyndum á vöru og þjónustu, t.d. hefur ferðin með flugrútunni hækkað um 80% á einu ári ef ég fer rétt með. Verð á flugi, veitingum og fleiru hefur einnig hækkað umtalsvert og menn mega ekki gleyma því að verð á sömu liðum í flestum öðrum löndum er mun lægra en gengur og gerist á Íslandi.

Það má líka gera að því skóna að nokkuð klúður hafi átt sér stað þegar kemur að ímyndar- og kynningarmálunum, sérstakalega eftir hrun bankanna og ljóst að það þarf miklu meiri vinnu og fagmennsku til þess að vinna upp þann skaða sem að landið hefur orðið fyrir vegna ákvarðanna sem voru teknar á einni helgi í október.  Umræðan um bankahrun og fjármálaóreglu mun verða tengt nafni Íslands í framtíðinni, það er bláköld staðreynd en það má ekki leggja árar og bát og bíða þess sem verða vill, heldur þarf að sækja markvisst fram í gegnum starfssemi á sviðum lista, vísinda, menningar og ekki má gleyma íþróttunum og æsku landsins í þessu samhengi. Sjálfstæð þjóð verður umfram allt að stuðla að samvinnu og samskiptum á þeim sviðum sem eru líkleg til þess að hjálpa til við að efla ímyndina og græða sárin sem rista djúpt í íslenskt samfélag þessa dagana. Það er hægt en það mun taka tíma og til þess þarf vilja og samstillt átak landsmanna allra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband