Áhlaupið á Kaupþing í Bretlandi

Eftir að hafa hlustað á viðtalið við Sigurð Einarsson fyrrum stjórnarformann Kaupþings þá er ljóst að áhlaupið á Kaupþing í Bretlandi hefur verið úr takti við aðrar aðgerðir breskra stjórnvalda sem voru í óðaönn að styrkja við bakið á öðrum bönkum. Það er ljóst að orrustan við Bretland mun halda áfram um hríð og það er ljóst að ábyrgð stjórnmálamanna á þessu ástandi, ef rétt er lýst af Sigurði er mikil, t.a.m. tjáði hann að það hefði verið vitað strax í mars að Landsbankinn gat ekki staðið undir Icesave reikingunum þar sem að eignir voru ekki til staðar. Í stað þess að loka á þessi innlánsviðskipti eða koma þeim í viðeigandi farveg þá gerðist ekkert. Til að mynda fór bankamálaráðherrann í fræga heimsókn og ekkert virðist hafa komið út úr þeim ferðum þrátt fyrir að menn hafi vitað að þeir væru með tifandi tímasprengju. Fjármálaeftirlitið virðist einnig hafa staðið stikkfrí og ekki þvingað bankann til tafarlausra aðgerða.

Í stað þess að vera í vinnunni virðist sem að embættismannakerfið hafi verið í góðu vetrar- og sumarfríi og sennilega höfum við flotið sofandi að feigðarósi. Við höfum slátrað mjólkurkúnum vegna þess að lítið samráð og samvinna virðist hafi verið á milli hins opinbera og bankanna. Það má taka undir þau orð Sigurðar að það er sorglegt hvernig er komið fyrir íslenska fjármálakerfinu og öllu því hæfa fólki sem var þar áður. Eftir að hafa fylgst með þessu utan frá í gegnum fjölmiðlana þá var manni ljóst að menn misstu tökin á atburðarrásinni, sérstaklega eftir að menn létu Glitni falla. Flestir sem starfa í fjármálaheiminum og hafa eitthvað vit þekkja þá staðreynd að fall eins banka hefur ruðningsáhrif hjá öðrum bankastofnunum og fyrirtækjum í því ríki.

Ég tek ofan hattinn fyrir Sigurði sem að viðurkennir að hann hafi brugðist. Það er ekkert að því að menn viðurkenni mistök sín og iðrist þess að hafa ekki undirbúið sig betur. Það mættu margir fylgja fordæmi Sigurðar og viðurkenna sín mistök og axla sína ábyrgð eins og hann hefur gert nú.

Það er ljóst að menn í forystusveit íslenskra stjórnmála, hvar á velli sem þeir standa, verða nú að girða í brók og verja íslenska hagsmuni í Bretlandi. Það er krafa að Ísland sæki rétt sinn gagnvart breska ríkinu.

Talaði við Hollending undir lok dagsins í gær og hann fór að spyrja um endinguna Thorsteinsson og ég tjáði honum uppruna minn stoltur en sagði jafnramt í gríni að ég gæti enn tekið við innlánum frá Hollandi...NICESAVE... það varð mikill hlátur og kvöddust við sem vinir eftir þetta samtal. Fólk sem er í samskiptum við erlenda aðila verður að nota tækifærið og koma íslenskum hagsmunum í sviðsljósið á jákvæðan hátt.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband