Orðum fylgir ábyrgð

Það var sérstakt að hlusta á málflutning dr. Jóns Daníelssonar hagfræðings við London School of Economics í Kastljósinu í kvöld. Hann beindi spjótunum að Fjármálaeftirlitinu og mistökum þess, og gagnrýndi líka slælega frammistöðu í almannatengslunum. Það er hægt að taka undir þessa gagnrýni þar sem að sendiráð Íslands t.d. í Bretlandi, þar sem að hitinn var hvað mestur virtist ekki með á nótunum. Yfirlýsingin sem að sendiherrann las upp fyrir þarlenda fjölmiðla verður lengi í minnum höfð. Maður hreinlega skammaðist sín fyrir að vera Íslendingur eftir að sú tilkynning fór í loftið. Ég ætla þó ekki að varpa sök á einn eða neinn, kannski eru okkar bestu menn ekki undirbúnir undir verk af þessu tagi.

Það er ljóst að Fjármálaeftirlitið hefði átt að grípa inn í atburðarrásina mun fyrr, áður en í krísu var komið. Almenningur er núna að tapa gríðarlegum fjárhæðum á því að hlutirnir fóru á versta veg. Eins og Jón benti á þá hefði verið betur að byrja aðgerðirnar fyrr og selja hluta af eignunum áður en efnt var til brunaútsölunnar.

Eftir að hafa hlustað á samtal Darlings og Árna M. lesið upp í Kastljósinu þá kemur manni svo sem ekkert á óvart að málflutningurinn í Bretlandi sé eins og hann er, en það var beinlínis varað við því að orðspor Íslands myndi bíða hnekki. Sannast hið fornkveðna, orðum fylgir ábyrgð.

Svo kemur Viðskipta- og Bankamálaráðherrann sjálfur fram í dag og segir að launin hjá ríkisbankastjórunum sé of há og þau þarfnist endurskoðunar. Það er ekki nema von að almenningur sé í sárum á meðan slíkir réttir eru fram bornir, á borð þar sem að lítið er til skiptanna. Er Viðskiptaráðherra á réttum stað, á réttum tíma og í réttu hlutverki? Hefði ráðherrann ekki átt að sjá hlutina fyrir og taka tillit til núverandi ástands?

Það er von mín að menn komist aftur í takt við raunveruleikann, þjóðin hefur ekki efni á öðru núna.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband