Hagfræði Argentínu og íslenskur tangó

Ég sótti Argentínu heim árið 2002 þegar að umsáturástand hafði skapast um bankana í þessu víðfeðma ríki. Þetta hefur rifjast upp fyrir mér í allri þeirri umræðu sem hefur átt sér stað um íslensku krónuna auk áhyggja sem að sparifjáreigandur hafa látið í ljós um stöðu bankanna. Það er mér enn ofarlega í huga þegar ég gekk um göturnar í höfuðborginni Buenos Aires að almenningur gekk á mann ef það sást á manni að þar var útlendingur á ferð. Erindið var einatt að reyna að nálgast dollara þar sem að fáir höfðu trú á mynt þeirra heimamanna, pesóanum sem var svo til ónothæfur í hugum almennings og fyrirtækja vegna mistaka í hagstjórninni.

Ástæðurnar voru einkum þær að ríkisstjórn Argentínu frysti alla bankareikninga fyrirtækja og einkaaðila og afleiðingarnar eftir því. Undanfari vandans var fyrst of fremst sá að fjárfestar misstu trúna á efnahagsstefnuna og trúna á gjaldmiðlinum. Sú sannfæring endurspeglaðist í öllum aðgerðum fyrirækja og almennings sem að hamstraði dollara með því að skipta á heimamyntinni pesóanum. Gjaldeyrisvarasjóður Argentínu var nánast enginn og reksturinn var fjármagnaður með erlendum lántökum en hafa ber í huga að landið er að miklu leyti háð erlendum innflutningi.

Gengisfall pesóans gagnvart dollar nam allt að 70% þegar að fastgengisstefna heimamanna var loksins aflögð þ.e. 1 dollar = 1 pesó, í kjölfarið fylgdi allt að 30% atvinnuleysi. Ástandið bar þess náttúrulega merki að þjóðin bjó við raunverulega kreppu og við tók aðlögunarferli með nýjum væntingum og öðrum veruleika þar sem að  landsmenn þurftu að taka á sig stóra skellinn. Nýr veruleiki og upplausnarástand leiddi m.a. til þess að mörg fyrirtæki voru með járnrimla og varnargirðinar til þess að halda aftur af óaldarlýð sem hafði í frammi mótmæli og fór um götur og vann skemmdarverk með því að kveikja í og eyðileggja það sem fyrir varð hverju sinni.  Vantrúin á gjaldmiðilinn var mikil á meðal landsmanna sjálfra og fjárfestar flýðu unnvörpum landið, mörg fyrirtæki urðu gjaldþrota auk þess sem að sparnaður einstaklinga fór forgörðum. Um helmingur 36 milljón íbúa var að auki sagður lifa undir fátæktarmörkum sem afleiðing af öllu saman.

Efnahagslegu áhrifin lýstu sér í því að erlend fjárfesting þornaði upp og útflutningurinn minnkaði fljótt enda sáu fjárfestar sér hag í því að fá meira fyrir dollarana sína t.d. í Brasilíu þar sem nautakjötið kostaði minna en í Argentínu svo dæmi séu tekin. Til þess að halda efnahagnum gangandi þá sótti ríkisstjórn Argentínu stíft í lánsfjármagn og það gerði einkaaðilum erfitt fyrir með að nálgast lánsfjármagn á boðlegum kjörum. Á endanum þraut súrefnið sem þurfti í reksturinn og gjaldþrotin tóku við þar sem ráðaleysið var algert með áhrifum eins og lýst var ofar.

Orð Seðlabankastjóra í viðtali á Stöð 2 í vikunni minntu á að neikvæð umræða er til alls fyrst og hefur til langframa áhrif á vilja fjárfesta og fyrirtækja á markaði. Öll óvissa hefur áhrif á sparifjáreigendur sem margir hverjir eru eðlilega tvístígandi í slíku umhverfi. Það er varhugavert að ætla að efnhagsvandamál í okkar sérstæða hagkerfi leysist með því einu að taka upp evru. Virðing okkar fyrir eigin fjármálakerfi þarf að vera til staðar áður en við tökum ákvarðanir um eitthvað annað. Því fer fjarri að ástandið hér sé svo slæmt þar sem að ríkisfjármálin eru í traustum farvegi, gjaldeyrisvarasjóður til staðar og bankar uppfylla skyldur sínar um eiginfjárhlutfall. Það eru þó blikur á lofti um minnkandi eftirspurn í hagkerfinu og nýrrar aðlögunar er þörf og óvíst að evran ein og sér muni hámarka hag þjóðarbúsins. 

Það er ljóst að við erum að hefja nýjan kafla í hagsögu Íslands. Í þeim kafla verður almenningur að vera í fararbroddi og draga úr umframeyðslu og neyslu sem að ber keim að því að eyða framtíðartekjunum áður en þær eru komnar í hús. Í tangó þarf tvo til. Hinn íslenski tangó hefur einatt einkennst af því að fyrirtæki og almenningur eyðir um efni fram og fleiri en einum boðið upp í dans hverju sinni. Slík skipan leiðir einatt til árekstra og ljóst að einhverjir standa ekki aftur upp frá slíkum árekstrum og þá koma nýjir dansarar inn í myndina. Seðlabankstjóri talaði skýru máli þegar að hann gagnrýndi málflutning lýðskrumara og árásir þeirra á krónuna.

Fyrir nokkrum mánuðum höfðu forsvarsmenn útflutningsgreinanna upp stór orð um rekstrarumhverfið þar sem að þeir töldu gengi íslensku krónunnar of hátt skráð. Í dag heyrum við lítið frá þeim en aftur mun meira frá þeim sem þurfa að kaupa inn vöru og þjónustu erlendis frá.  Þar sannast hið fornkveðna að eins kvöl er annars pína.

Kannski er tími umvöndunarhagfræðinnar kominn til að vera í einhvern tíma, jafnt á Bifröst sem í borginni.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Kærar þakkir fyrir góða og upplýsandi grein Guðmundur. Ekki er vanþörf á.


Á Íslandi virðast spunavélarnar komnar í gang aftur. Þær spinna því miður ekki úr ull núna, heldur spinna þær gull og vinsældir á ótta þjóðarinnar.

Bestu kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 20.9.2008 kl. 19:39

2 Smámynd: Guðmundur Helgi Þorsteinsson

Þakka þér fyrir góð orð Gunnar. Orð IMF í dag gefa til kynna að íslenskt hagkerfi hefur staðist fyrstu raunina en það er ljóst að nú fer í hönd skeið þar sem fjölskyldur og fyrirtæki verða að aðlaga sig að nýjum veruleika. Við íslendingar höfum í gegnum tíðina verið þekktir fyrir að geta aðlagað okkur hratt að nýjum aðstæðum og þar liggur styrkur hagkerfisins. Vonandi bera allir gæfu til þess að taka spunameistarana ekki og hátíðlega þar sem að málflutningur þeirra hefur til langframa neikvæð áhrif á samfélagið og vilja manna til góðra verka.

Kv. Guðmundur

Guðmundur Helgi Þorsteinsson, 21.9.2008 kl. 11:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband