Hvort gilda landslög eða knattspyrnulög?

Það er ekki nýlunda að þjálfarar, leikmenn og forystumenn íþróttafélaga hafi skoðanir á ýmsu því er kemur upp í keppni á Íslandsmótum í hinum ýmsu greinum.  Gildir þá einu hvort um er að ræða knattspyrnu, handbolta og svo framvegis. Nú heyrði ég í Guðjóni Þórðarsyni þjálfara ÍA í kvöldfréttunum þar sem að hann gagnrýndi störf dómara og sagði þá hafa ákveðið að taka ÍA föstum tökum. Slæmt ef satt er. Ekki ætla ég mér að leggja neitt inn í þá umræðu en ljóst að mönnum svíður þegar á móti blæs og segja þá stundum eitthvað sem betur hefði mátt kyrrt liggja. Í vetur sem leið kom upp svipað atvik í handboltanum þegar að þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar í Garðabæ fór mikinn í fjölmiðlum. Báðir þessir þjálfarar vísuðu í málfrelsið máli sínu til stuðnings og sögðu að landslög giltu í þessu landi (Íslandi).

Forystumenn og þjálfarar eru fyrirmyndir og til þeirra eru gerðar miklar kröfur um að þeir stígi varlega til jarðar, það er oft erfitt og sér í lagi að halda haus þegar mönnum finnst að sér vegið. Ég hef alltaf haft mikið álit á Guðjóni en hann virðist ekki hafa verið upp á sitt besta þarna. Íþróttahugsjónin gengur út á að allir séu jafnir í leik og ekkert manngreiningarálit þar á ferðinni en íþróttir eru ekki fullkomnar og auðvitað koma upp atvik sem oft orka tvímælis. Það sem vekur furðu mína er að virtir þjálfarar eru farnir að vísa í landslög og telja þau æðri lögum leiksins. Því er til að svara að það gilda agareglur fyrir allar íþróttagreinar og eru þær í samræmi við lög og reglur viðkomandi sérsambands og alþjóðasérsambands þess, í tilfelli Guðjóns reglur FIFA og í tilfelli þjálfara Stjörnunnar reglur IHF. Ef menn eru taldir brjóta agareglur þá fá leikmenn og þjálfarar refsingar í samræmi við agareglur viðkomandi greinar en ekki samkvæmt landsdómstólum í viðkomandi landi. Þessu virðast fjölmiðlamenn gleyma og láta menn hafa uppi stór orð um landslög sem eðli máls hafa ekkert með hlutina að gera jafnvel þó að menn vísi í það að um þeirra atvinnu sé að ræða.

Eitt af einkennum íþróttanna er að menn ganga til leiks með það í farteskinu að virða lög og reglur viðkomandi leiks. Ef menn telja á sér brotið þá verða menn að sækja rétt sinn í samræmi við lög og leikreglur þeirrar greinar þar sem hið meinta ástand átti sér stað. Það sér hver heilvita maður að erfitt yrði að láta starfið ganga upp ef menn sendu erindi sín alltaf áfram til landsdómstóla. Fjölmiðlar verða að gera sér grein fyrir þessu þegar þeir skjóta fréttum sínum í loftið án þess að setja fram skýringar.  Ekkert alþjóðasérsamband tekur við skipunum frá dómstól í því landi sem að upp hefur komið ástand enda væri þá engin þörf á því alþjóðasérsambandi sem þyrfti að glíma við landslög í hverju landi fyrir sig. Það sama er væntanlega í kortunum hjá íþróttahreyfingunni  en þar gildir að mál sem koma upp á hennar vettvangi verða að vera útkljáð þar og hvergi annarsstaðar.

Nú er bara að vona að menn setji niður deilur og gangi aftur til leiks.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband