Að halda friðinn í samfélaginu

Árið 2009 var ár sem að einkenndist almennt af óeiningu og ófriði í samfélaginu. Því miður hafa stjórnmálaöflin ekki náð að sameina land og þjóð. Sundurleitni og vanvirðing fyrir grunngildunum hafa verið ráðandi. Stundum er best að þegja og skipta sér ekki af, og stundum er líka nauðsynlegt að tjá sig og segja sína skoðun. Margir einstaklingar hafa látið í ljós þá skoðun sína að það sé ekki eðliegt af ríkissaksóknara að gefa út ákæru á hendur þeim taldir eru hafi rofið friðhelgi Alþingis Íslendinga. Eftir að hafa lesið pistil á netinu þar sem að lögreglumaður skrifar Sölva á Skjánum þá er ég þeirrar skoðunar að við þurfum að staldra við og draga línuna sem skilur á milli friðar og ófriðar. 

Í lýðræðisríki jafngilda árásir á helstu stofnanir hins opinbera árásum á fólkið í landinu og því verður ekki þegjandi tekið. Auðvitað geta menn haft sýnar skoðanir á málum en lesningin hér að neðan segir margt um það ástand sem skapaðist og vekur upp spurningar um hvernig og hvenær ber að bregðast við ástandi eins og því sem að skapaðist við Alþingi í aðdraganda hrunsins. Það er eðlilegt að velta því fyrir sér hvort að opinberar persónur geti yfir höfuð gengið óhult um stræti og torg, og hvort að löggæslan í landinu sé undir það búin að takast á við óeirðir og uppþot almennt? Erum við að sigla inn í nýja tíma án þess að vita af því?

Pistillinn hér að neðan segir mikið en hann er eignaður óþekktum lögreglumanni:

,,Það er mat margra lögreglumanna að eignaspjöll og látlausar árásir á lögreglumenn þessa daga hafi verið leyft að ganga allt of lengi og allt of langt. Ég stóð vaktina þessa daga og kom fyrst niður eftir þegar að fólk hafði umkringt Alþingi og lamdi á rúður með ýmsum áhöldum. Við smátt og smátt náðum að ýta fólki frá húsinu og inn í miðjan garðinn. Það var ótrúlega súrrealískt að standa þarna og horfa á ungt fólk allt niður í 16-17 ára, klætt í fín merkjaföt, brosandi útað eyrum þegar það skvetti úr súrmjólkurfernum yfir höfuð lögreglumanna. Allskyns mjólkurvörum sem það keypti af Jóni Ásgeiri í Austurstræti.

Mikill minnihluti fólksins var "venjulegt" fólk, fólk sem manni fannst "eðlilegt" að væri statt á Austurvelli til þess að nýta sér tjáningarfrelsið sitt og lýsa vanþóknun sinni á algeru gjaldþroti stjórnmálamanna. Fólk sem maður fann til samkenndar við. Ég er alls ekki að segja að ungt fólk eigi ekki að mótmæla né hafi til þess þroska. Ég er eingöngu að segja að upplifun mín (staðfest af mörgum félaga minna) var sú að mikið af unga fólkinu þarna var eingöngu komið til þess að djöflast í lögreglunni.


Hvernig er hægt að biðja lögreglumenn um að bíða og bíða og horfa upp á endalaus lögbrot fólks sem mætir til þess að svala annarlegum hvötum sínum? Fyrir laun sem eru í engu samræmi við líkamlegt og andlegt álag starfsins. Það er skoðun margra að lögreglan hefði átt að grípa mun fyrr inn í þessa atburðarás og að stjórnendur lögreglunnar hafi í raun og veru ekki þorað að taka ákvarðanir fyrr en raun bar vitni. Sú aðgerð að fólk stillti sér upp fyrir framan lögregluna til að verja hana staðfestir þetta mat mitt og annarra lögreglumanna. Meirihluti fólksins gekk alltof langt gagnvart lögreglunni, og lögreglan brást ekki við því.

Það er aldrei fallegt að sjá lögreglu beita valdi. En það er algerlega kristaltært að lögreglan stofnar ekki til átaka í óeirðum. Hún er mætt á svæðið til að ljúka átökunum. Oftast er það gert með beitingu valds. Annað er ekki hægt. Það var prófað að leyfa mótmælendum (aðallega fólki sem var að gera eitthvað annað en að mótmæla) að ganga berserksgang gegn bæði lifandi fólki (lögreglumönnum) og dauðum hlutum (t.d. Oslóartréinu) og það gekk sífellt lengra og lengra og endaði með saur- og grjótkasti eins og frægt er orðið. M.a. var tvívegis skotið úr stórum línubyssum eins og finnast í bátum að hópi lögreglumanna fyrir framan Alþingi síðustu nóttina. Aðgerðaleysi lögreglunnar gerði því ekkert annað en að stigmagna framgöngu óeirðaseggja. Með því að grípa fyrr inn í hefði klárlega mátt koma í veg fyrir einhver meiðsli."

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband